145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að biðja hv. þm. Sigríði Á. Andersen um að rökstyðja betur þá niðurstöðu sína hér áðan að tollasamningur Íslands við Evrópusambandið sé með öllu óskyldur þessu máli og hafi ekkert með það að gera og það eigi ekkert að blanda því saman. Ég reyni í grófum dráttum að segja það sem mér fannst hv. þingmaður vera að falla um í þeim efnum. Sérstaklega vil ég biðja hv. þingmann að gera þetta vegna þess að:

a) Þá er ljóst að stóraukinn innflutningur á tollfrjálsri vöru, alifugla-, svína- og nautakjötsframleiðslu og ostum keppi þar með í ríkari mæli við sambærilega innlenda framleiðslu. Hvernig er þá hægt að halda því fram að það hafi ekki áhrif á starfsskilyrði greinanna sem hér er verið að semja við um starfsgrundvöll og starfsskilyrði næstu árin? Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp.

b) Stjórnarflokkarnir sjálfir hafa sagt að þessi mál hangi algjörlega saman. Það vita það allir menn hér að þó að það sé kannski ekki bara af efnislegum ástæðum heldur pólitískum líka þá eru þetta tvíburamál. Sagan segir að annar stjórnarflokkurinn leggi áherslu á annað málið og hinn á hitt og niðurstaðan séu venjuleg helmingaskipti; það er einn fyrir mig og einn fyrir þig. Framsókn vill koma sínum búvörusamningi í gegn, en Sjálfstæðisflokkurinn telur að það sé þá skárra en ekkert fyrir sig að fá tollasamninginn í gegn á móti.

Bæði pólitískt og efnislega, ef farið er ofan í málið þá hafa þetta verið tvíburamál hér frá byrjun og lögð fram saman, rædd og unnin samtímis og fyrir alveg undarlega tilviljun komu þau sama daginn úr nefnd. Var það ekki algjör tilviljun? Og þau eru á dagskrá hér saman í dag. Er nú ekki eitthvað aðeins meira í þessu en hv. þingmaður vill vera láta?