145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Gott og vel. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það var að sjálfsögðu skýrt að þetta er persónuleg skoðun eða mat þingmannsins. Hann telur að eigi ekki að blanda þessu saman, en það ryður auðvitað ekki til hliðar öllu hinu sem fyrir liggur í málinu. Er ekki bara stutta sagan sú að þegar þessi tollasamningur dúkkar allt í einu upp bændum að óvörum verður náttúrlega mikill óróleiki, eins og var opinbert í kjölfarið? Þá er farið að tala við þá um að reynt verði að gera við þá langtímabúvörusamning í staðinn og það skapi aðlögunartíma fyrir greinina o.s.frv. Síðan verður þetta að pólitísku trúlofunarmáli milli stjórnarflokkanna því að sá samningurinn sem er öðrum flokknum erfiðari á að bætast upp með hinum samningnum sem er þeim flokki þóknanlegri og þá kannski öfugt.

Sem sagt: Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja búvörusamninginn á sig af því að hann fær tollasamninginn og Framsókn ætlar að reyna að lifa með að vísu sinn eigin tollasamning af því að hún fær búvörusamninginn. Í grófum dráttum hefur maður upplifað þetta í hinu pólitíska tafli hér. En efnislega eru þessi mál þannig að þau varða bæði miklu (Forseti hringir.) um starfsskilyrði landbúnaðarins næstu árin. Þess vegna er þetta ein heild.