145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandamálið er að hv. þingmaður og nefndin slá úr og í varðandi það hvort þetta sé þriggja ára samningur eða tíu ára samningur. Það er vandamálið. Með því er gefið til kynna að hér sé verið að búa til með loddaraskap einhvers konar leiktjöld til þess að halda því fram við þjóðina að hér sé um þriggja ára samning að ræða þegar í reynd er verið að skuldbinda ríkið til tíu ára. Mér finnst að nefndarmeirihlutamenn verði að kveða algjörlega skýrt á um það og vera menn til þess að koma hér í ræðustól og segja þá alveg skýrt að þeir líti svo á að ríkið sé óbundið eftir þrjú ár. Getur hv. þingmaður sagt það hér í andsvari, já eða nei?

Að því er fjárhæðina varðar er athyglisvert að heyra þá léttúð sem fylgir tali hv. þingmanns um fjárhæðir í þessu samhengi. Ég er tilbúinn að borga vel fyrir samning sem losar bændur úr fátæktargildrum, eykur markaðsaðhald í greininni, losar menn undan ofstjórnartilburðum þessa kerfis, eykur á vöruframboð í landinu og opnar fyrir samkeppni í greininni. (Gripið fram í.) Ég er til í að borga hátt verð fyrir það. Það er ekki verið að gera í þessum samningi, hv. þingmaður.

Vandamálið er hins vegar að þessi stjórnarmeirihluti virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að bjóða þjóðinni upp á að koma hér með útgjöld sem eru eins og dýrasti og óhagstæðasti Icesave-samningurinn og hafa engan undirbúning, enga greiningu um samningsmarkmið. Ég veit ekki hvaða orð hv. þingmenn hefðu haft um svona samninga ef einhverjir aðrir hefðu verið að gera þá; að vaða af stað, semja til tíu ára, fjárhæðin er 200 milljarðar, hv. þingmaður, með tollverndinni, 200 milljarðar, án þess að leggja niður fyrir sér samningsmarkmið. Þeir sitja svo uppi með svo ónýtt plagg og ónýtan samning að hv. þingmaður og félagar hans í atvinnuveganefnd eru búnir að rembast við að reyna að stagbæta þetta vikum saman og vita sjálfir upp á sig skömmina, að samningurinn er svo vondur að það er ekki hægt að fara með hann óbreyttan í gegn. Ég held að þau vinnubrögð verði til ævarandi skammar fyrir hv. þingmann og þá sem með honum hafa starfað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)