145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:10]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur barið sér á brjóst fyrir mér og kallað okkur loddara og öllum þeim nöfnum sem honum detta í hug. En ég skal bara lesa fyrir hv. þingmann hérna svo hann skilji það þá:

„Meiri hlutinn leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.“

— Afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum. Hvernig er hægt (Gripið fram í.) að hafa þetta skýrara? (ÁPÁ: Af hverju er þá verið að …?) Hv. þingmaður kom sér hjá því að svara spurningu minni um hvort honum þyki sú upphæð sem þarna stendur of há eða lág? (ÁPÁ: Hún er ekkert of há ef samningurinn …) (Forseti hringir.) Er hún of há eða of lág? Nei, það er nefnilega málið. Hv. þingmaður er ekki alveg tilbúinn til þess að svara því. (ÁPÁ: Ef samningurinn er …) Ég veit vel að hv. þingmaður vill náttúrlega bara hafa þetta tollfrjálst og að íslenskur landbúnaður keppi við niðurgreiddan landbúnað úti í Evrópu. (ÁPÁ: Hvenær hef ég sagt það?) Ég veit bara að hann hefur margoft (ÁPÁ: Hvenær hef ég sagt …?) sagt það, þannig að þetta kemur mér ekki á óvart. (ÁPÁ: Þú segir ósatt.)

En við sem viljum landbúnaðinum vel reynum að stuðla að því að hann fái sína styrki hérna og við hlúum að honum og verndum hann fyrir niðurgreiddri samkeppni frá Evrópu.