145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Það er gott og gagnlegt að einn framsóknarmaður taki þátt í umræðunni. Það hefur hv. þingmaður núna gert en ég sakna þess að fleiri skuli ekki koma og tjá skoðanir sínar og ræða við okkur um málið.

Hv. þingmaður ræddi um útflutning á lambakjöti. Hér hefur verið sagt að við stefnum á enn meiri framleiðslu. Hún er um 3 þúsund tonn í dag umfram innanlandsneyslu. Það hefur verið reynt að selja það úr landi með misjöfnum árangri. Þá stendur dæmið einfaldlega þannig í smækkaðri eða samanþjappaðri mynd: 3 þúsund tonn af lamba- og kindakjöti eru seld úr landi og fyrir það fást á þessu ári miðað við núverandi gengi, miðað við sölutölur frá því í fyrra, um 1,5–1,6 milljarðar kr. En að sama skapi ef við tökum 5 milljarðana til sauðfjársamningsins í 10 þúsund tonn þá segir það okkur að það eru 500 milljónir á hver þúsund tonn. Þessi 3 þúsund tonn sem við flytjum út fá þá af ríkispeningum í niðurgreiðslur eða útflutningsbætur, eða hvað sem við viljum kalla það, 1,5 milljarða. Niðurstaðan er að þetta skilar þjóðarbúinu engu. Þetta er á núlli. Bændur fá sitt greitt frá sláturleyfishöfum fyrir þessi 3 þúsund tonn en við sem erum að reyna að koma umframframleiðslunni úr landi, hún skilar þessu. Er hv. þingmaður ánægður með þá niðurstöðu?

Það er ekki rétt að útflutningurinn sé eingöngu á einhverjum aukaafurðum eins og slögum eða einhverju slíku, það er ekki rétt. (Gripið fram í: Ég sagði ekki eingöngu.) Ég bendi á að í svari ráðuneytisins til mín er skrokkhlutum raðað niður, skipt niður eins og þeir eru sagaðir í raun og veru, síðan er (Forseti hringir.) sýnt til hvaða landa það er selt og hvað við fáum. Þar munar dálítið miklu.

En spurningin mín er um útflutningsbæturnar 1,5, 1,6 milljarðana og svo aftur það sem kemur inn í landið og staðan er núll.