145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður dró fram afar athyglisverðan punkt sem er hvað það kostar að framleiða þau 3 þúsund tonn sem við seljum úr landi, annars vegar hvað það kostar bændur og hins vegar hvað það kostar sláturhúsin að slátra, sem segja að það sé með tapi, 100 kr. á kíló hver slátrun. Hann nefnir líka að það kosti í gjaldeyri að flytja inn ýmislegt til landsins til að framleiða þessi 3 þúsund tonn, sem er vissulega rétt. Hv. þingmaður hefur í raun og veru bent þingheimi á að staðan er verri en ég dró upp. Ég fór bara með það niður í núll en hv. þingmaður segir í raun að það sé meiri mínus ef svo er.

Dæmið versnar hvað þetta varðar miðað við það sem hv. þingmaður setur fram. Það er þetta atriði sem ég gerði að umtalsefni, og fleiri þingmenn hafa gert það, að það sem ég óttast er að það verði meiri offramleiðsla í sauðfjárafurðum sem þarf að flytja út. Við vitum það núna, það hefur komið fram fyrir nefndinni, að erlendir kaupendur krefjast verðlækkunar þannig að dæmið á eftir að versna enn þá meira.

Mig langar í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann út í það sem hann gerði að umtalsefni og er á móti því að taka úr gildi þannig að mjólkurframleiðsla falli undir samkeppnislög. Sauðfjárbændur og sauðfjárframleiðsla er háð samkeppnislögum. Arna í Bolungarvík er sett undir samkeppnislög. Kú er sett undir samkeppnislög. En MS er undanþegin samkeppnislögum. Er eitthvað sanngjarnt við það, virðulegi forseti? Mig fýsir að heyra svar þingmannsins sem er í jafnaðarmannaflokki, þótt Framsóknarflokkurinn sé. Hvað finnst honum um þessa ójafnaðarmennsku?