145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi grein hv. þingmanns í Morgunblaðinu. Það hefur það ekkert með áhuga minn að gera á því að lesa skrif hv. þingmanns að hún kom ekki fyrir mín augu, heldur hitt að ég les sjaldan Morgunblaðið nema þá helst minningargreinarnar. Það er skýringin á því.

Í öðru lagi varðandi framsóknarmenn. Já, það má ýmislegt segja um þá og framgöngu þeirra á sviði landbúnaðarmála. Við skulum taka viljann fyrir verkið og ætla að þeir vilji almennt vel, en þeim eru mislagðar hendur eins og fleirum. Það var nú þannig að þegar búvörusamningurinn birtist sagði við mig ónefndur þingmaður býsna nálægt þeim: Ja, það er sama sagan, það verður alltaf eitthvert slys ef við missum framsóknarráðherra inn í landbúnaðarráðuneytið.

Í þriðja lagi varðandi það sem við vorum að ræða hér áðan, þ.e. hversu stolt við gætum verið af því að geta hampað íslenskum landbúnaði að þessu leyti sem hreinum og sem fyrirmyndargrein að sínu leyti í þessum efnum. Þar vantar í raun ekki nema herslumuninn. Kannski er hægt að nota færið í þessu þriggja ára endurskoðunarplani núna úr því að það var ekki tekið með, illu heilli, sem við hefðum viljað sjá og hefur það verið einn okkar gagnrýnisþáttur að taka ekki miklu betur utan um þessi mál samtímis; hvernig við ætlum að mæta loftslagsmarkmiðunum, hvert framlag landbúnaðarins er þar og að við stígum næstu skref til fulls um að banna notkun erfðabreyttra efna o.s.frv. Gætum við þá svo sannarlega verið stolt af.

Ég hef oft tekið garðyrkjuna og gróðurhúsaframleiðsluna hér á landi sem dæmi um sjálfbærnina til að útskýra fyrir mönnum hversu stórkostlegt það er að við notum jarðvarmann og rafmagn framleitt með endurnýjanlegri orku til að lýsa og hita upp gróðurhús, við framleiðum þar grænmeti; papriku, tómata, gúrkur og ýmiss konar grænmeti og það fer beint ferskt á disk neytendanna hér með lágmarksflutningskostnaði. Hvað mundi gerast ef við værum (Forseti hringir.) ekki með þessa grein? Þessum vörum væri flogið inn til landsins með öllum því vistspori sem því fylgir. Kannski er því gróðurhúsa- og garðyrkjustarfsemin eitthvert glæsilegasta dæmið um sjálfbæra (Forseti hringir.) hluti í þessum efnum.