145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi garðyrkjuna þá eru menn almennt sammála um að vel tókst til þegar menn ákváðu að fella niður tollverndina en færa í staðinn u.þ.b. ígildi þess stuðnings yfir í beinan stuðning frá ríkinu sem er upp á liðlega hálfan milljarð kr., ef ég man rétt, og fólginn í beingreiðslum vegna framleiðslu á papriku, gúrku og tómötum og síðan niðurgreiðslu á flutningskostnaði rafmagns og raforku í gróðurhúsin. Þar hefur tekist mjög vel til. Að mörgu leyti er staða garðyrkjunnar líka sterkari að þessu leyti. Þar er um að ræða vöru með takmarkað geymsluþol, flutningskostnaðurinn hlutfallslega meiri miðað verðmæti vörunnar og margt fleira sem mætti nefna til.

Í sjálfu sér, þótt ég sé nú enginn markaðshyggjumaður, get ég tekið undir að það er öllum gott að hafa aðhald enda sé það á sanngjörnum samkeppnisforsendum. Þess vegna bregður mér í brún þegar meiri hluti atvinnuveganefndar dregur heldur úr því að það eigi að tryggja að innlend framleiðsla keppi á sama grunni hvað varðar gæði, hollustu og heilnæmi og vinnuumhverfi. Hvernig eigum við að tryggja að ómerktar kjúklingabringur frá Tælandi sem eru framleiddar af þrælum frá Mjanmar þar í landi en fluttar til Evrópu, koma ekki hingað inn sem hollenskar eða danskar kjúklingabringur og hvernig eigum við að tryggja við hvaða sómasamlegu aðstæður og gæði þær eru framleiddar? Þetta er vandinn. Um leið og þessir hlutir væru algerlega í gadda slegnir, eins og hv. þingmaður mundi orða það, ætti íslenskur landbúnaður sterkari stöðu ef hann fengi að njóta kosta sinna að þessu leyti því auðvitað getur það verið dýrara að búa við jafn strangar aðbúnaðarreglugerðir og hér, að búa við jafn strangar reglur um lyfjagjöf, að búa við íslenskt launaumhverfi í framleiðslunni og keppa svo við Tæland og Mjanmar. Það eru hlutir af þessu tagi sem verður líka að hafa í huga.

Varðandi tollkvótana þá get ég alveg tekið undir að það er ástæða til að fara yfir það fyrirkomulag. Hér eru menn með hugmyndir um að bjóða (Forseti hringir.) tollkvótana upp oftar á ári og í minni skömmtum til að draga úr hættunni á því að stórir aðilar geti hramsað þá í einu (Forseti hringir.) eða tveimur útboðum á ári. Mér finnst það vera tilraunarinnar virði að skoða það. Svo (Forseti hringir.) hefur hlutkestisleiðin auðvitað oft verið nefnd líka.