145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að keppt sé á réttum grundvelli, en hér erum við auðvitað líka að kljást við heimatilbúinn vanda. Við höfum grafið undan upprunamerkingarkerfi í eigin landbúnaði allt frá mjólkursölulögunum 1934 þegar vont skyr og gott skyr var hrært í einn pott og enginn vissi hvaðan það kom. Það er sú skussaverndarhefð í íslenskum landbúnaði sem háir okkur í dag. Það mikilvægasta sem greinin þarf á að halda í dag er rekjanleiki, meiri vissa um hvaðan varan kemur. Það er orðið gulls ígildi. En við höfum vanrækt það. Kerfið hefur vanrækt að byggja upp það sem grunnþátt í vöruþróunarkeðjunni og í vinnslukeðjunni undanfarna áratugi. Það er núna að koma í bakið á okkur. Ég held að ef við værum þar í fararbroddi er ég sannfærður um að menn mundu vilja kaupa góða íslenska vöru, en það þýðir líka að menn þurfa að vera með allt uppi á borði. Sömu svínabændur og kvarta núna yfir því að enginn viti hvaðan svínið komi sem verði flutt inn eru sömu svínabændur og vildu ekki leyfa sjónvarpinu að taka myndir í búum sínum í fyrra. Það gengur ekki. Ég held að það sé mikill vilji til þess á Íslandi, ég þekki fjölda fólks sem er tilbúið að borga tvöfalt verð fyrir svínakjöt sem það veit að kemur af vel öldum dýrum frá fjölskyldubúum þar sem eitthvað er tryggt, ekki bara sagðar einhverjar goðsögur um að það sé engin lyfjanotkun heldur þar sem það er tryggt að hún er ekki. Upprunamerkingarnar eru þess vegna tækifæri fyrir íslenskan landbúnað.

Ég sakna þess einmitt í þessum samningi að ekki sé gengið lengra í því að hjálpa mönnum að brjóta upp þetta gamla sovéska stórframleiðslukerfi og leggja höfuðáherslu á upprunamerkingarnar. Í því felst raunveruleg gullgæs fyrir íslenskan landbúnað í framtíðinni. Það er ég sannfærður um.