145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að við erum sammála um að að því marki sem mönnum er att út í samkeppni þá eigi hún að vera á sanngjörnum grunni. En ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum illa í stakk búin til að tryggja það og jafnvel ekki einu sinni tilbúin til að leggja af mörkum sem til þarf. Tökum bara svína- og alifuglaræktina hér í landinu sem er núna að undirbúa sig undir og leggja af stað í að takast á við að innleiða mjög strangar aðbúnaðarreglugerðir og fyrsta flokks kröfur um velferð dýra, sem er gott og við viljum hafa þannig. En greinin á að fá til þess sáralítinn stuðning. Hún á að fara samkvæmt tollasamningnum að keppa við aukinn innflutning alifugla og svínaræktar, annaðhvort frá Evrópusambandslöndunum og nágrannalöndunum þar sem menn fá miklu hærri hluta kostnaðarins vegna aðbúnaðarreglna beint úr sameiginlegum sjóðum eða alla leið frá Asíu. Þá kemur upp þessi vandi sem snýr bæði að verði, vinnuumhverfi þeirra sem starfa í greininni, innihaldi vörunnar o.s.frv. Ástandið hjá okkur er þannig að Matvælastofnun hefur ekki einu sinni peninga til að taka almennileg sýni, hvað þá að greina þau, til að athuga hvers konar vara er þarna á ferðinni. Að þessu verðum við að hyggja.

Ég er sammála því að upprunamerkingarnar og rekjanleikinn eru afar mikilvægar. Það hefur gengið of hægt. Meira að segja merkar tilraunir eins og fyrirtækið Austurlamb á Austurlandi gerði um nokkurt árabil hafa lognast út af. Nú er Fjallalamb (Gripið fram í.) að leggja af stað og reyna það aftur að menn geti keypt beint frá bæjum. Ég vona að það gangi vel og vonandi fær það góða fyrirtæki að njóta þess að það er að leggja í kostnað og útbúa sig til þess að geta gert þetta. Það er gott.

Að síðustu af því hv. þingmaður nefndi svínabúin og þær fréttir sem stundum hafa komið frá þeim þá gladdi það mig að sjá einmitt í gær held ég fréttir frá dýralæknum um að nú þegar hafi náðst mikill árangur og nú sé greinilegt að þau sáravandamál og fleira sem urðu tilefni fréttaumfjöllunar bæði í fyrra og hittiðfyrra séu mjög á niðurleið. Við skulum vona að það sé ávísun á að málin séu að þróast í rétta átt.