145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alltaf hressandi að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson tala þótt það sé ekki annað en að heyra hljóminn í rödd hans og þótt maður hlusti kannski ekki mikið á það sem hann segir. En mig langar að spyrja hv. þingmann sem sat í ríkisstjórn 1991–1995, sat í ríkisstjórn frá 2007–2013, sem talar um þær breytingar sem hann hefði viljað sjá á búvörusamningnum, sem talar um að hann hefði viljað sjá ákveðna stefnu í landbúnaðarmálum: Hvernig stendur á því að hann og hans flokkur hafa á þessum tíma aldrei komið með neinar tillögur í þá veru? Á því tímabili, frá 2007–2013, ef ég man rétt, var búvörusamningurinn framlengdur ár frá ári og aldrei tekið á neinu. Hví getur þá hv. þingmaður staðið hér og talað um að allir aðrir eigi að koma með breytingar á landbúnaðarstefnunni þegar hann hefur haft öll þessi ár til að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að svo mætti verða?