145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ef ég man rétt, herra forseti, hugsanlega hef ég misskilið hv. þingmann, var hann ekki framlengdur ár frá ári, hann var framlengdur tvisvar á þessu tímabili. Í fyrra skiptið var það reyndar þegar ég var í ríkisstjórnarflokki hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þá framlengdum við hann. Það var rangt hjá mér að við hefðum þá skert greiðslurnar um 5%, það var um 10%. Síðar í annarri ríkisstjórn sem ég átti sæti í líka var hann framlengdur aftur. Við vorum þá enn í kreppu, en þá voru tekin upp nýmæli eins og t.d. reynt að beina mönnum inn á nýjar brautir, nýsköpun í landbúnaði eins og t.d. kornrækt. Ég veit að hv. þingmaður, sem er glögg kona, hefur tekið eftir því í fréttum að það hefur gengið rosalega vel. Svo vildi ég gjarnan þakka henni fyrir þau fallegu ummæli sem hún lét hljóma hér um alla vega gæði raddar minnar þó að henni geðjist ekki innihaldið.