145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kveður einna skýrast að orði hér í þessum sal oft og tíðum, þess vegna er mér ekki alveg ljóst hvað hann átti við í ræðu sinni áðan. Hann hóf hana á því að segja réttilega að opinber stuðningur við íslenskan landbúnað væri í sjálfu sér ekkert giska meiri en hann er í löndunum í kringum okkur. En síðan sagði hann aðeins seinna í ræðu sinni að hér væri um að tefla gríðarlega háar upphæðir. Nú verð ég bara að viðurkenna að ég skildi ekki alveg hvert hv. þingmaður var að fara og hvort hann meinti, þ.e. að stuðningur sé ekkert gríðarlega mikill, eða hvað. Ég vil fá að vita hvort var réttara í framsögu hv. þingmanns, að stuðningur væri ekki mikill eða hér væri um risaupphæðir að tefla.