145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það hefur komið fram í umræðum í dag, til dæmis hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakið það mjög ítarlega, hvernig áhrif þessi samningur hefur á sauðfjárræktina og fram hefur komið m.a. í úttekt sauðfjárbænda sjálfra að það virðist sem sum gisin svæði komi verr út en hin. Ég er ekki að segja að það eigi að setja meiri pening í þetta, síður en svo, en ég er að segja: Þá að skipta því öðruvísi innan þessa hóps. Ég er þeirrar skoðunar og ekkert feiminn við að segja það að ég tel að þeir bændur sem búa á svæðum sem eru ekki í neinni hættu, það sé allt í lagi að dregið sé úr stuðningi við þá, en á móti megi setja meiri stuðning við þá sem eru á gisnustu svæðunum. Þetta hefur verið mín skoðun. Þetta er kannski ekki hin kórrétta afstaða framsóknarmanna, en ég tel að svona ætti þetta að vera. Ég vil nota þessa peninga ef við erum á annað borð að nota þá til þess að styrkja byggðirnar þar sem stoðirnar eru veikastar.