145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó að draga muni úr mannfjölgun í veröldinni upp úr miðri þessari öld þá munu samt sem áður bætast 3–4 milljarðar við þá 7 sem eru nú þegar. Við munum verða 10 milljarðar. Það blasir við samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna að bæta þurfi við 70–90% í matvælaframleiðslu heimsins á þessum tímum. Það er þetta sem ég er að horfa á, líka hreinleika íslensks landbúnaðar. Ég tel sem sagt að hægt sé að finna, ég kalla það syllu, hv. þingmaður kallaði það heilt bjarg. Ég verð að gagnrýna Framsóknarflokkinn fyrir að hafa ekki staðið við það sem hann lofaði í upphafi kjörtímabilsins, að leggja fram stefnumörkun og áætlun um möguleika íslensks landbúnaðar eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti hér í glæsilegri stefnuræðu, hinni fyrstu sem hann flutti. Ég bíð enn eftir því að það verði framkvæmt.

Svo að lokum, herra forseti. Ég veit ekki hvað ég á að halda. (Forseti hringir.) Fyrst kemur hv. þingmaður og segir að rödd mín hljómi fagurlega en innihaldið sé svakalegt, (Forseti hringir.) svo kemur annar hv. þingmaður og segir að það sé skemmtilegra að horfa á mig en að hlusta. [Hlátur í þingsal.] Það er í fyrsta skipti sem það er sagt við mig.