145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[22:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fer hálfvegis hjá mér yfir þeim skjallyrðum sem ég er beittur hér. Þetta er í fyrsta skipti á 25 ára ferli sem nokkur hefur komið í þennan ræðustól og sagt að ég sé yndislegur. Ef þið sjáið vel, hv. þingmenn, þá nánast merla tár á augum.

En ég er hins vegar ekki sá eini sem er á landbúnaðarvæng Samfylkingarinnar. Ég vísa til dæmis á hv. þm. Kristján L. Möller og hv. þm. Árna Pál Árnason sem töluðu mjög í sömu veru og ég. Hv. þingmaður segir að þær hafi verið heldur snautlegar ástæðurnar sem ég gaf, hugsanlega, það er smekksatriði og hann hefur allan rétt til að hafa þá skoðun. En bara eitt nægir mér algjörlega, eitt nægir mér algjörlega til þess að geta ekki greitt þessu atkvæði, og það er sú staðreynd að ég tel að ekkert tryggi það að þessi samningur komi til endurskoðunar innan þriggja ára. Ég tel að þegar menn eru að taka svona ákvarðanir rétt fyrir kosningar komi ekki til greina annað en slá það algjörlega í gadda að nýtt þing (Forseti hringir.) fái að fjalla um þetta og koma að hreinu borði.