145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna. Það er mjög líklegt að það gæti verið heillavænlegt að hafa sérstaka bókun með þessum samningi sem tekur af öll tvímæli um að aðilarnir séu sammála um að endurskoðunin fari fram að þessum tíma liðnum og u.þ.b. hvernig að henni skuli unnið. Það kann vel að vera að tækifæri gefist milli 2. og 3. umr. til þess að gaumgæfa þann þátt. Ég teldi að mörgu leyti að það væri vel ráðið að gera það til þess að taka af öll tvímæli og til þess að koma í veg fyrir hugsanlegan ágreining hjá öðrum eða öðruvísi skipuðum stjórnvöldum eftir þrjú ár.

Ég hef aftur á móti sagt það sjálfur og ég sagði það síðast í ræðu minni áðan að auðvitað er þessi samningur til tíu ára. Hann er gerður við bændur til tíu ára og ég þarf nú ekki að segja sveitamanninum að ég væri svolítið nervös sjálfur ef ég væri kúabóndi og hefði kýr núna sem væru að festa fang vegna þess að afurðir þeirra yrðu ekki orðnar fullskapaðar fyrr en að þessum þremur árum liðnum, eða alveg í bláendann á þessu tímabili. Þegar við ræðum framleiðslu eins og þessa sem hefur svona langan framleiðsluferil verður greinin að hafa staðfestu og það sem heitir á dönsku „stabilitet“, afsakið, frú forseti, til þess að menn geti gert sínar áætlanir og unnið verk sín eins og þeir vilja best gera.