145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[23:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alveg rétt að hér er um langa framleiðslukeðju að ræða. Ég kom líka inn á það í ræðu minni í dag að þess vegna er fyrirsjáanleiki að sjálfsögðu mjög mikilvægur eftir því sem kostur er á. Ég er alveg sammála því og var reyndar á fundum í atvinnuveganefnd þar sem ég hljóp í skarðið sem varamaður þar sem þetta bar á góma með bókun.

Það er alveg augljóst mál að það væri til styrktar málinu ef samningsaðilar yrðu sammála um tiltekna viðbótarbókun sem fylgdi samningnum eða yrði hengd á samninginn og tengdist því að það væri í góðri trú gert og sameiginlegur skilningur á því hvað í þessum endurskoðunarákvæðum fælist. Ég les þannig í dæmið. Já, samningsramminn er til tíu ára, en það eru skýrð hér og styrkt endurskoðunarákvæði í samningnum. Þau hafa gildi gagnvart því að þar með myndast ekki lögmætar væntingar um annað úr hófi. Menn vita að fyrirkomulagið getur sætt endurskoðun eftir þrjú ár. Það stemmir sem sagt væntingar í hóf við það að menn geti gengið að þessum tíu árum vísum óbreyttum sem slíkum. Þar af leiðandi myndast að mínu mati (Forseti hringir.) ekki þannig lögmætar væntingar að það geti skapað ríkinu vandræði. En þetta atriði þarf auðvitað að vera eins skýrt og kostur er. (Forseti hringir.) Þess vegna væri mjög mikilvægt að fá annars vegar þessa bókun og hins vegar eins mikla og skýra lögskýringu í nefndaráliti, jafnvel framhaldsnefndaráliti í 3. umr., og kostur er.