145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sem talaði á undan mér að lýsa ánægju minni yfir þeirri skýrslu sem lögð var fram í gær. Starfshópur hefur unnið að því í tvö ár að koma með tillögur að því sem kallað er að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu og það er virkilega ánægjulegt að skýrslan er komin fram. Gerðar eru tillögur um að í stað þess að fangelsa fólk fyrir að vera með neysluskammta á sér komi fjársektir. Í flestum tilfellum er það væntanlega ungt fólk sem er með neysluskammta á sér. Það er náttúrlega ekki gott fyrir neinn að fara í fangelsi en ég held að það sé sérstaklega óhollt fyrir ungt fólk að fara í fangelsi.

Ég fagna því líka að lagt er til að brot af þessu tagi verði ekki til þess að fólk lendi á sakaskrá. Það er sérstaklega ánægjulegt að það sé tekið í burtu.

Síðan er lagt til að fjölgað verði afeitrunarplássum sem tiltæk eru með litlum fyrirvara. Það er líka gott, virðulegi forseti.

Eitt atriði enn er að einstaklingi sem sprautar vímuefnum í æð verði tryggður aðgangur að gjaldfrjálsri nálaskiptaþjónustu. Þetta er líka mjög góð tillaga vegna þess að það skiptir máli að fólk, sem er komið á þann stað í lífinu að það sprautar sig, noti þó a.m.k. verkfæri til þess sem (Forseti hringir.) skaðar það ekki enn frekar. Ég fagna þessari skýrslu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna