145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ástandið í Tyrklandi er grafalvarlegt. Í gær bárust fréttir af því að alþjóðasamtök dómara, Evrópusamtök dómara og dómarafélög víðs vegar hafi mótmælt fjöldahandtökum og fangelsunum á tyrkneskum dómurum. Undanfarin ár hefur verið þrengt að tyrkneskum dómstólum og um 3 þúsund tyrkneskir dómarar voru handteknir strax eftir valdaránstilraunina þar í landi.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, hefur óskað eftir fundi með forsætisráðherra um málið. Ég fagna því. Það er því miður rík ástæða til að óttast um mannréttindi í Tyrklandi. Það eru ekki bara dómarar sem hafa verið handteknir, þingmenn, aðallega kúrdískir, hafa verið sviptir þinghelgi eða sitja undir hótunum um slíkt. Fjöldi blaðamanna hefur verið fangelsaður.

Formaður Dómarafélagsins bendir á að eitt og sér geti Ísland kannski ekki lyft neinu grettistaki en vonast til að Ísland láti í sér heyra því að þrátt fyrir allt sé Tyrkjum ekki sama um hvað sagt er um þá í öðrum löndum.

Það er hárrétt. Í síðustu viku lögðum ég og fleiri þingmenn fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi skoraði á tyrknesk stjórnvöld að standa vörð um lýðræði, frelsi þjóðernisminnihlutahópa, borgaraleg réttindi og frjálsa fjölmiðlun í Tyrklandi. Það leið ekki langur tími þar til a.m.k. sú er hér stendur fékk bréf frá tyrkneska konsúlnum í Noregi um að ég væri að misskilja stöðuna í Tyrklandi.

Við þessar aðstæður er það skylda annarra ríkja (Forseti hringir.) að láta í sér heyra og Ísland á að gera það þótt smátt sé. Kannski væri einn liður í því hreinlega að taka þessa þingsályktunartillögu á dagskrá og samþykkja hana.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna