145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum nú um skýrslu um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þetta er viðamikil skýrsla í sjö bindum, en hún á rót að rekja til samþykktar þingsályktunartillögu frá 28. september árið 2010, en sú þingsályktunartillaga byggði á vinnu nefndar sem þingið hafði sett á laggirnar til að gera tillögur til þingsins um hvernig bregðast ætti við skýrslu rannsóknarnefndar um fall bankanna 2008. Þá var það mál manna að sparisjóðirnir hefðu nokkuð setið á hakanum í vinnu þeirrar nefndar og þinginu þótti ráðlegt að ráðast í þessa rannsókn. Síðan er samþykkt ný þingsályktunartillaga í júní 2011 þar sem kveðið er á um hvernig standa skuli að þessari rannsókn.

Rannsóknarnefndin sem þá var skipuð skilaði af sér í aprílmánuði árið 2014 og í kjölfar þess fór fram umræða í þingsal um málið og skýrslan hafnaði síðan á vinnsluborði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og er nú komið að því að við skilum okkar afurð til Alþingis.

Í fyrrnefndum þingsályktunarsamþykktum er ekki nóg með að kveðið hafi verið á um að rannsókn á erfiðleikum sparisjóðanna skyldi fara fram heldur var einnig lagt til að fram skyldi fara heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna í landinu. Það er mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að sú viðamikla skýrsla sem nú liggur fyrir Alþingi muni gagnast vel við slíka rannsóknarvinnu sem mikilvægt er að fari fram. Við lítum svo á að slík umfjöllun eigi ekki heima hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd heldur þurfi þingið að huga að starfsumgjörðinni með öðrum hætti.

Mig langar að vitna í örfáar línur úr álitsgerð okkar um aðkomu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að þessu starfi:

Í samræmi við hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur nefndin við meðferð skýrslunnar einkum lagt áherslu á aðkomu opinberra aðila að málefnum sparisjóðanna, þ.e. ráðherra og opinberra eftirlitsstofnana, og er það í samræmi við hlutverk nefndarinnar. Í því sambandi hefur nefndin einkum fjallað um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna í kjölfar falls bankanna haustið 2008. Nefndin tók sérstaklega til umfjöllunar málefni Sparisjóðsins í Keflavík, síðar SpKef sparisjóðs. Í því sambandi hefur nefndin horft til ábendinga rannsóknarnefndarinnar um ákvarðanir stjórnvalda og óskýra lagaframkvæmd og kostnaðar ríkissjóðs vegna tilraunar til endurreisnar Sparisjóðsins í Keflavík, síðar SpKef sparisjóðs. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taldi jafnframt nauðsynlegt að fjalla um aðkomu Alþingis að málefnum sparisjóðanna og áhrif lagasetningar á starfsemi þeirra. Nefndin telur mikilvægt að dreginn verði lærdómur af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og leggur áherslu á að við umfjöllun um brotalamir í framkvæmd laga verði að líta til markmiða þeirra og stefnu löggjafans á hverjum tíma.

Allt er þetta mjög skýrt hvað varðar aðkomu okkar að þessu máli. Það er ljóst og má ráða af rannsóknarskýrslunni að víða voru brotalamir á þessum tíma í rekstri sparisjóðanna. Þess ber að geta að innan nefndarinnar hafa komið fram sjónarmið um að fara hefði mátt í ítarlegri könnun á einstökum málum og leiða fram á afdráttarlausari hátt misfellur í stjórn sumra sparisjóða. Á það er hins vegar að líta að mörgum málum var vísað til þar til bærra yfirvalda þar sem grunur lék á um refsiverða háttsemi.

Ég ítreka að það er ekki á verksviði rannsóknarnefndarinnar, og stóð aldrei til, að fara í saumana á slíkum málum. Það er heldur ekki á verksviði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera slíkt og ég ítreka að fjölda mála var vísað til saksóknara til frekari rannsóknar. Þar var um að ræða álitamál um hvort um brotlegt athæfi kynni að hafa verið að ræða. Rúmlega 20 mál fóru til saksóknara með þessum hætti og enn er þess að geta að fjölda mála var einnig vísað til eftirlitsstofnana.

Í þessu viðamikla verki er að finna gott og afar fróðlegt yfirlit um þróun sparisjóðanna á Íslandi. Við fáum góða sýn á það hvernig sparisjóðakerfið tekur breytingum samkvæmt breyttum áherslum og markmiðum sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa sett sér. Fyrstu lögin um sparisjóði á Íslandi eru frá öndverðri síðustu öld, fyrstu heildarlögin 1915, en áður voru til sparisjóðir byggðir á konungstilskipunum. Segir lítið af sparisjóðunum lengi vel á Íslandi annað en að þeir reyndust sínum byggðarlögum mjög mikilvæg lyftistöng.

Árið 1985 hefst hins vegar þróun sem var öll á einn veg og alveg fram yfir aldamótin. Þá hefst ferli sem miðar að því að draga úr þeim mun sem var á sparisjóðunum annars vegar sem áhersla var á í upphafi að væru samfélagslegar stofnanir í nánum tengslum við sín byggðarlög, draga annars vegar úr þessu hlutverki og hins vegar hlutverki viðskiptabanka og færa þessar stofnanir hverja nær annarri. Þetta er 1985. Það eru gerðar breytingar 1993 og það er í samræmi við EES-reglugerðir. Þess má geta að rannsóknarnefndin tekur það fram að á sínum tíma hefðum við getað nýtt okkur betur það svigrúm sem þá gafst til að setja strangari eftirlitsreglur. Það var ekki gert.

Veigamikil spor voru stigin 2001. Þá var gefin heimild á hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Þá var t.d. opnað á þann möguleika að taka mætti arð út úr lífeyrissjóðunum og greiða það stofnfjáreigendum jafnvel þótt tap hefði verið á rekstrinum. Þarna er horfið alveg frá hinum gömlu gildum að þessu leyti. Það var reynt að snúa þessu til baka í þessum þingsal. Árið 2002 kom fram frumvarp um að það bæri að snúa af þessari braut en það hlaut ekki brautargengi.

Skemmst er frá því að segja að allt miðar að því að gera sparisjóðina sem líkasta viðskiptabönkunum og gera stofnfjárbréfin, sem áður var nánast litið á sem félagslegt framlag, að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að lögin hafi ekki alltaf verið nægilega vel undirbúin og hagsmunaaðilar ráðið helst til miklu um framvinduna. Þess ber þó að geta að meðal hagsmunaaðilanna var iðulega mikil togstreita, milli smárra og stórra lífeyrissjóða og milli stofnfjáreigenda og þeirra sem vildu standa vörð um önnur gildi. En þetta er mat rannsóknarnefndarinnar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur undir að löggjafinn hefði mátt vera ígrundaðri og ekki hleypa hagsmunaaðilum eins nærri lagasetningu og raun bar vitni.

Það er ekki mikil gagnrýni af hálfu rannsóknarnefndarinnar í garð eftirlitsstofnana, en þó eru ábendingar um óskýra lagaframkvæmd sem nefndin telur rétt að verði teknar til skoðunar, svo sem varðandi heimildir til reksturs sparisjóða þótt skilyrðum um eiginfjárhlutfall hafi ekki verið fullnægt. Kem ég þá að þeim þætti sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd beindi sjónum sínum sérstaklega að, þ.e. Sparisjóðnum í Keflavík, umbreytingu hans í SpKef, samspilinu sem þá varð á milli eftirlitsstofnana og hins pólitíska valds og hvort þar hafi verið eðlilegt samspil aðila í milli.

Ég ætla hvað þetta áhrærir að vísa í niðurlag álitsgerðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem segir um þetta efni, með leyfi forseta:

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gagnrýnir ekki að stjórnvöld skuli hafa sett sér tiltekin pólitísk markmið við endurreisn fjármálakerfisins og tekur undir þau sjónarmið sem m.a. birtast í skýrslum fyrrverandi ráðherra fyrir rannsóknarnefndinni og komu fram á fundi nefndarinnar að víðtækur vilji var til þess að standa vörð um sparisjóðakerfið. Fyrir nefndinni hafi hins vegar komið fram sjónarmið og vangaveltur um hverju hafi í raun staðið til að bjarga. Í því sambandi vekur nefndin athygli á þeim miklu breytingum sem höfðu orðið á starfsumhverfi sparisjóðanna og raktar eru fyrr í áliti þessu. Þótt ekki sé hægt að setja alla sparisjóðina undir sama hatt sé ljóst að margir þeirra höfðu fjarlægst upphaflegt hlutverk sitt og almennt höfðu sparisjóðir tapað sínum sérkennum sem áður aðgreindu þá frá viðskiptabönkunum. Umfjöllun um breytt eðli sparisjóðanna var hins vegar takmörkuð og hefði verið æskilegt að mati nefndarinnar að markviss umræða um stöðu þeirra og framtíð hefði farið fram. …

Við umfjöllun um ákvörðun stjórnvalda að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem SpKef sparisjóð telur nefndin að líta þurfi til þeirra aðstæðna sem stjórnvöld voru í. Með neyðarlögunum nr. 125/2008 hafi verið gert ráð fyrir ákveðinni aðkomu stjórnvalda að málefnum sparisjóðanna“ auk þess sem ríkisstjórnin gaf út „yfirlýsingu um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. … Innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar komu fram sjónarmið um að stjórnvöld hefðu mátt kanna frekar hvort aðrar leiðir hefðu verið færar til að tryggja innstæður en að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem SpKef sparisjóð með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð, eins og síðar var gert.

Í nefndinni var rætt um hvort pólitísk stefnumótun eða pólitískur vilji ráðamanna að því er varðar starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík hefði með einhverjum hætti haft áhrif á aðkomu eftirlitsstofnana að málefnum Sparisjóðsins í Keflavík, þ.e. Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Nefndin tekur fram að á opnum fundi nefndarinnar hafi ekki verið ágreiningur um að ákvörðun um að endurreisa Sparisjóðinn í Keflavík sem SpKef sparisjóð hafi verið pólitísk en ekki var tekið undir sjónarmið um að pólitískur þrýstingur hefði haft áhrif á störf eftirlitsstofnana. Hlutverk og ábyrgð stofnana sem komu að málefnum Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið skýrt og þær tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Engu að síður er ljóst að aðkoma fjármálaráðuneytisins var mjög afgerandi og getur ráðuneytið því ekki vísað allri ábyrgð á hendur eftirlitsaðilum. Við slíkar aðstæður leggur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áherslu á að sjálfstæðar eftirlitsstofnanir sinni störfum sínum án áhrifa frá því ráðuneyti sem þær heyra stjórnskipulega undir.“

Við sem sátum fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skrifum öll undir þetta álit, auk mín hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Brynjar Níelsson, Helgi Hjörvar, Elsa Lára Arnardóttir, Árni Páll Árnason og Willum Þór Þórsson.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu innan þess tímaramma sem samkomulag var um og leyfi mér að vísa nánar í álit okkar sem núna liggur fyrir sem þingskjal og menn geta glöggvað sig betur á og er að sjálfsögðu mun ítarlegra en fram hefur komið í máli mínu.