145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[16:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Að öllum samfélögum steðjar mikill vandi þegar heilt fjármálakerfi hrynur. Þegar það gerðist hér vorum við svo gæfusöm að setja reglur um endurreisn fjármálakerfisins. Það var gert með neyðarlögunum. Grunnurinn að endurreisninni var sá að við ætluðum að tryggja innstæður í fjármálafyrirtækjum, í bönkunum, í sparisjóðunum. Það var auðvitað skylda stjórnvalda að gera það með þeim hagkvæmasta hætti sem kostur var, enda miklir hagsmunir í húfi.

Þær aðgerðir sem var farið í voru ákveðnar í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn nema að önnur leið var farin við endurreisn sparisjóðanna. Sparisjóðirnir voru teknir út fyrir sviga í þessari vinnu og við í nefndinni einblíndum á gerðir stjórnvalda í kringum Sparisjóðinn í Keflavík sem átti samkvæmt pólitískri ákvörðun að vera grunnstoð í endurreisn sparisjóðakerfisins. Ég tek undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem sagði áðan að ekki hefði verið heppilegt að blanda þessum aðgerðum saman enda hvor sinn hluturinn.

Niðurstöðurnar hvað varðar aðkomu stjórnvalda eru að hér hafi verið gerð mistök sem hafa kostað skattgreiðendur mikið fé, meira en hefði þurft hefði verið farin sama leið og með endurreisn annarra fjármálafyrirtækja. Í sjálfu sér er ekki hægt að hafa miklar athugasemdir við pólitískar ákvarðanir um að endurreisa eitthvert kerfi sem var hætt með. Hins vegar er hægt að gera athugasemdir við að það skuli gert með þessum hætti í kringum það að taka ábyrgð á innstæðum þessara fyrirtækja. Þegar teknar eru slíkar ákvarðanir skiptir líka máli hvort forsendur hafi verið fyrir því að gera það.

Þegar rakin er þróun mála hjá Sparisjóðnum í Keflavík frá mars 2009 og síðan SpKef sparisjóði þar til hann var sameinaður NBI liggur fyrir að staða hans versnaði frá mánuði til mánaðar. Í upphafi var ljóst að eiginfjárhlutfall sparisjóðsins var undir lágmarki samkvæmt 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki. FME gerði í september 2008 skýrslu um útlána- og markaðsáætlun sjóðsins og niðurstaðan gaf mjög dökka mynd af stöðu sparisjóðsins. FME veitti sparisjóðnum ítrekað frest til að uppfylla lögbundnar kröfur um eiginfjárhlutfall en heimild var til þess í 4. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki ef líkur eru taldar á að fjármálafyrirtækið geti aukið eiginfjárhlutfall sitt. Heimilt er að veita frest til þess í allt að sex mánuði og hægt að framlengja þann frest í aðra sex mánuði séu ríkar ástæður fyrir því.

Þegar skoðuð eru öll gögn, skýrslan frá FME í september 2008 um stöðu sjóðsins, öll gögn sem lágu fyrir í vinnuhópum þar sem fulltrúar voru frá FME, Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu um stöðuna, þar sem ljóst var að staðan versnaði frá mánuði til mánaðar má undarlegt heita að engu að síður voru ítrekað veittir frestir. Að mínu viti er útilokað að réttlæta með nokkrum hætti að FME skyldi veita sex mánuði í viðbót eftir sex mánaða framlengingu á undanþágunni án þess að geta gefið nokkur haldgóð rök og ríkar ástæður þegar fulltrúar FME komu fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Það kann að vera að þessi afstaða FME hafi gefið stjórnvöldum ástæðu til að ætla að þetta gæti verið hægt, ég skal ekkert um það segja, þó að margir telji líklegra að hin pólitíska afstaða hafi frekar haft áhrif á ákvörðun FME. Ekki ætla ég að vera neinn dómari í því. Það breytir því ekki að þarna er farið gegn öllum ráðleggingum, öllum upplýsingum sem lágu fyrir um stöðu sjóðsins og mönnum mátti vera kunnugt að þessi áframhaldandi rekstur, taprekstur mánuð eftir mánuð, mundi á endanum hafa áhrif á greiðslu ríkisins með auknu tjóni skattgreiðenda vegna þess að á endanum þurftu menn alltaf að taka ábyrgð á innstæðum sparisjóðsins. Ef staðan hefði versnað mánuð fyrir mánuð er ljóst að tap ríkissjóðs mundi aukast.

Hér erum við auðvitað ekki með nákvæmar tölur en í skýrslu rannsóknarnefndar kemur fram að tjónið er einhvers staðar á bilinu 25–26 milljarðar. (Gripið fram í.) Sumir segja eitthvað meira. Kannski skiptir það ekki höfuðmáli. Það sem er ámælisvert er að stjórnvöld virðast hafa látið sér í léttu rúmi liggja hver niðurstaðan yrði vegna þess að það hafi verið einhvers konar pólitísk ákvörðun að gera þetta, jafnvel reynt að rökstyðja það, eins og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra gerði fyrir nefndinni, að ekki hefði skipt neinu máli um tapið hvort sparisjóðurinn hefði verið tekinn strax niður eða tveimur árum seinna þegar hann er sameinaður NBI. Þetta eru ekki haldgóðar skýringar að mínu viti. Það er ljóst að tapið skiptir máli. Innstæðurnar jukust eftir að SpKef varð til. Það er ljóst að tapið er umtalsvert og að þarna hafi verið ámælisvert af stjórnvöldum að grípa ekki inn í fyrr, eins og fyrrverandi fjármálaráðherra segir sjálfur. Hefði hann vitað um skýrslu FME frá september 2008, hann segir það fyrir rannsóknarnefndinni um sparisjóðinn, hefði strax verið gripið í taumana. Svo virðist sem stjórnvöld og ráðuneytið hafi ekki verið upplýst um öll þau gögn sem lágu fyrir um stöðu sjóðsins. Það er grafalvarlegt ef rétt er.

Það er líka ástæða til að gera alvarlegar athugasemdir við stofnun SpKef eftir að FME gat ekki veitt frekari frest eða undanþágur til starfsemi Sparisjóðs Keflavíkur vegna þess að verulegar athugasemdir komu fram um réttmæti þessarar ákvörðunar á fundi Seðlabanka Íslands nokkrum dögum eftir stofnun SpKef. Þar kom fram að Seðlabankinn teldi stöðu sparisjóðsins erfiða og ljóst að hann ætti engar eignir sem nothæfar væru í reglulegum viðskiptum fjármálafyrirtækja við Seðlabankann. Einnig kom fram að lausafjárstaðan var enn slæm. Aðstoðarseðlabankastjóri nefnir sérstaklega að enn hafi engum tekist að sannfæra hann um að um lífvænlegan banka væri að ræða. Í minnisblaði fjármálaráðuneytis til ríkisstjórnarinnar 12. október 2010 kemur fram að staða SpKef væri erfið og líkur til þess að eignastaða sjóðsins sé jafnvel enn verri þar sem efnahagsforsendur verðmats PricewaterhouseCoopers frá 28. nóvember 2009 hefðu ekki gengið eftir. En enn er haldið áfram. Þetta leiddi allt til verulegs tjóns þó að við höfum töluna ekki nákvæmlega á hreinu. Þetta er tveggja ára prógramm. Þetta er í andstöðu við ráðleggingar allra sérfræðinga, m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, allt að því er virðist í pólitískum tilgangi. Ég geri engar athugasemdir við að menn hafi einhver pólitísk markmið um að endurreisa sparisjóðakerfið en við getum ekki leyft okkur að gera það við þessar aðstæður því að neyðarlögin gerðu ráð fyrir að þetta yrði gert með einföldum og hagkvæmum hætti, með eins litlum útgjöldum fyrir ríkissjóð og hægt var. Þetta tókst með önnur fjármálafyrirtæki með miklum glans. Stjórnvöld á þessum tíma fylgdu eftir áætluninni með öll önnur fjármálafyrirtæki en þetta fyrirtæki og tókst vel vegna þess að áfram var farið eftir fyrirmælum neyðarlaga.

Ég verð að segja sjálfur að mér er óskiljanlegt, af því að við tölum svo mikið um mikilvægi og sjálfstæði eftirlitsstofnana, að FME hafi á þessum tíma, frá mars 2009, veitt þessar undanþágur án þess að séð verði að nokkrar ástæður hafi staðið til. Það er verulega ámælisvert og fulltrúar FME gátu engar haldgóðar skýringar gefið nefndinni í þessum efnum. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir og það gefur mér tilefni til og áhuga á að endurskoða hvort ástæða sé til að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið þannig að hér sé samræmd stefna því að bæði bankinn og eftirlitið fóru svolítið hvort sína leiðina í þessu, greinilega einhvers konar ágreiningur um málið, en ég vil engu að síður í lokin þakka nefndarmönnum fyrir vel unnin störf. Þetta var erfið vinna, mikil vinna, og er í raun og veru ekki á nefndarmenn leggjandi í eðlilegu umhverfi án mikillar aðstoðar. Þetta tókst samt bærilega, held ég. Ég held að menn hafi verið sanngjarnir í úrlausn sinni, ekki farið lengra en þeir höfðu haldgóð rök fyrir. Eins og ég segi og hef oft sagt í allri þessari umræðu: Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en engu að síður verður að benda á það sem er ámælisvert, það sem betur hefði mátt gera, og ég trúi því að við lærum öll á þessu.