145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[16:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt að fá að taka þátt í þessari umræðu er snýr að áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna skýrslu rannsóknarnefndar sem Alþingi stofnaði til um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna. Þess ber að geta að þetta er mjög ítarleg skýrsla og kostaði um 700 milljónir, það munaði ekki um það. Nefndin skilaði sinni vinnu og nú eru að verða tvö ár síðan stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók málið upp í nefndinni og skilar þessu áliti fyrst núna. Betra er seint en aldrei. Ég vil benda á ákveðið misvægi í þessum málum og leiða að því líkur hvað raunverulega gerðist á þessum dögum og því er ég líka með skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sem var lögð fyrir Alþingi árið 2011.

Þegar þetta er skoðað er ljóst að ýmislegt gengur ekki upp í málflutningi fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Ef skýrslan sem viðkomandi aðili gaf þinginu 2011 er skoðuð og svo þetta álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sést misræmi í ýmsu. Fyrst skal það ítrekað eins og hefur komið fram í máli þingmanna í þessari umræðu að það var einkennilegt að Sparisjóðurinn í Keflavík skyldi hafa fengið að starfa á undanþágum í svo langan tíma þar sem sparisjóðurinn uppfyllti á engan hátt kröfur um eiginfjárhlutfall. Þetta mál á sér allt mjög langa sögu og er orðið mjög gamalt. Hér er líka vísað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, stóru bankaskýrsluna. En það kemur fram í þessum skýrslum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var alfarið á móti því að endurreisa sparisjóðakerfið. Svo virðist sem það hafi verið keyrt áfram á pólitískum forsendum að leggja svo mikið fé inn í sparisjóðakerfið. Sparisjóðirnir voru hringinn í kringum landið. Einn er í Norðausturkjördæmi sem dæmi en aðalmálið og stóra tapið fyrir ríkissjóð var Sparisjóðurinn í Keflavík.

Ég veit ekki hvað knúði aðila áfram á þessum tíma, þeir verða að svara betur fyrir það, en það var mjög einkennilegt að ríkisstjórnin skyldi fara gegn áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eins og við vitum vorum við á þessum tíma í prógrammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þannig að það sker mjög í augu að sjá þetta birtast með svona afgerandi hætti í þessum skýrslum.

Þegar þetta er gert var það réttlætt með þeim orðum að það ætti að endurreisa sparisjóðakerfið. Væntingar stjórnvalda á þeim tíma voru til þess að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði móðurstöð sparisjóðakerfisins á Íslandi. Það er rangt, eða a.m.k. hvít lygi, því að Byr hafði þá þegar tekið við því hlutverki. Svo gengu þessi mál. Það sorglegasta er að það milliskref að láta ríkið dæla peningum inn í fallinn Sparisjóðinn í Keflavík var til einskis tekið því að fyrir rest var Landsbankinn látinn taka hræið af honum. Þá fór fram verðmat og talið að ríkissjóður þyrfti að leggja nýstofnuðum Landsbanka til rúmlega 13 milljarða við þessa færslu. Það er alveg með ólíkindum að þetta milliskref hafi verið tekið á sínum tíma. Ég hef ekki fengið haldbær rök fyrir því hvers vegna það var gert. Ég sat fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar fyrrverandi fjármálaráðherrar mættu fyrir nefndina og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra líka. Þá talaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um að við ættum nú að líta til þess að á þessum tíma hafi verið svartir dagar í sögu þjóðarinnar. Ég hafna því, virðulegi forseti. Svörtu tímarnir í lífi þjóðarinnar voru haustdagarnir 2008 þegar þáverandi ríkisstjórn setti neyðarlögin. Þegar hér var komið sögu og verið að baslast við að reyna að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur og fleiri sparisjóði voru engir svartir tímar í lífi þjóðarinnar. Það voru alveg hreint teknar ákvarðanir með bæði augun opin, a.m.k. miðað við umhverfið sem var þá. Eins og ég hef sagt hef ég ekki fengið neinar haldbærar skýringar fyrir því enn þá hvers vegna þetta var gert með þessum hætti.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon situr nú í þingsal og ætti að geta upplýst okkur um eitthvað aðeins meira en það sem kemur fram í þessari skýrslu.

Það er heppilegt að þessi skýrsla sé til umræðu nú því að þetta er einn hluti af einkavæðingu bankanna hinni síðari. Nú er búið að leggja lokahönd á skýrslu sem meiri hluti fjárlaganefndar tekur til umræðu eftir næstu helgi og birtist þá almenningi. En þetta er einungis örlítið brot af því sem kemur þar fram því að talið er að kostnaður skattgreiðenda við endurreisn sparisjóðakerfisins sé á bilinu 32–33 milljarðar. Þetta eru háar upphæðir, sérstaklega í ljósi þess að á þessu tímabili var verið að skera niður heilbrigðiskerfið, menntakerfið og grunnstoðirnar. Þessi upphæð er einungis örlítið brot af því sem birtist okkur í skýrslunni sem verður birt eftir næstu helgi þar sem farið er yfir seinni einkavæðingu bankanna þegar kröfuhöfum voru beinlínis færðir bankarnir á silfurfati með mikilli meðgjöf frá íslenska ríkinu og þar af leiðandi skattgreiðendum.

Annar hluti þessa máls sem er til umræðu sem lítið hefur verið fjallað um núna upp á síðkastið, gott að fá tækifæri til að ræða þessi mál í víðu samhengi í þinginu, er sú ákvörðun að flytja innstæður Spron til Arion. Þeim var breytt í það sem kallast Drómi. Þá var það raunverulegt, má segja, handrukkunarteymi sem fór af stað og þar var engu eirt. Það var alltaf sagt: Af hverju eru svona harðar innheimtuaðgerðir í Drómamálunum gagnvart þeim sem áttu lán þar undir? Það þannig vaxið að Drómi var færður yfir til Arion á sérstakri kennitölu. Það var ekkert vörumerki að verja þar þannig að það voru mjög kræfar innheimtuaðgerðir. Ég held að nú sé varla til sú fjölskylda á Íslandi sem þekkir ekki einhvern sem varð Dróma að bráð. Maður hefur heyrt margar sögur af því hvernig innheimtuaðgerðum var háttað þar. Svo þegar þetta var gert lofaði þáverandi fjármálaráðherra að Arion yrði skaðlaus af bréfunum sem var rennt inn í Arion þannig að ríkið tók alla áhættu af því. En þetta er einn angi þessa máls sem lítur líka dagsins ljós eftir næstu helgi.

Það sem verður líka að ræða í þessu sparisjóðamáli er sá undarlegi atburður þegar stjórnvöld taka sig til og breyta forsendum neyðarlaganna þegar komið er fram á árið 2009. Þá voru nýbúnar kosningar, réttkjörin stjórnvöld, Vinstri grænir og Samfylkingin, settust í ríkisstjórn eins og allir vita og á ákveðnum tímapunkti ákvað þáverandi fjármálaráðherra að breyta forsendunum fyrir verðmatinu og víkja af leið neyðarlaganna. Þetta var gert að því er virtist á einni nóttu. Ég hef verið að kalla eftir upplýsingum innan úr kerfinu vegna þessara mála. Fjárlaganefnd hefur nú fengið sendar fundargerðir frá tveimur hópum. Í einni fundargerðinni kemur beinlínis fram sú alvarlega skoðun eins nefndarmanna að stjórnvöld vilji gera allt sem þau geta til að friðþægja kröfuhafa. Það var svo sannarlega gert. Það var breytt um stefnu í miðju kafi. Nýtt verðmat var gert og raunverulega öllu kollvarpað sem sneri að þessum fasta, flotta ramma sem neyðarlögin raunverulega skipuðu. Vald var tekið af Fjármálaeftirlitinu og það fært inn í fjármálaráðuneytið og þá fyrst fékk pólitíkin lausan tauminn. Þá voru búnir til dauðalistar og teknar ákvarðanir um hvaða fyrirtæki skyldu lifa og hver deyja.

Þá var líka farið í að taka gengislánin upp aftur. Þau höfðu verið færð yfir í nýju bankana í íslenskum krónum en á þessum tíma voru þau endurvakin. Ekkert er til samkvæmt íslenskum lögum sem hét gengistryggð lán. Ef greinargerð með lögum um vexti og verðtryggingu frá 2001 er lesin sést strax að það er ólöglegt að gengistryggja lán við erlenda gjaldmiðla hér á landi. Þessi lán voru alla tíð ólögleg. Það vissu bankarnir svo sem og ég kalla eins og fleiri hér eftir ábyrgð Fjármálaeftirlitsins á að hafa leyft þessu að gerast. Svo féllu dómar í Hæstarétti og þau voru dæmd ólögleg. Það er ótrúlegt hvað Hæstiréttur þurfti að dæma í mörgum málum, það féllu yfir 20 dómar í Hæstarétti til að finna út úr því að lánin væru ólögleg.

Blekkingin í þessu öllu saman er sú að láta fólkið allan tímann halda að það væri að borga af erlendum lánum. Það er blekkingin sem var farið af stað með. Það var engin efnisleg eign, það var aldrei neinn gjaldeyrir á bak við þessi gengistryggðu lán. Líklega lítur það út fyrir hálfgerða bókhaldsbrellu hjá föllnu bönkunum að kalla þetta gengistryggð lán og binda þau við erlendan gjaldeyri til þess að halda uppi debethlið bankanna til að geta rúllað í gegn miklu magni af erlendum gjaldeyri sem hvarf svo allur úr landi og varð aldrei eftir hér í landinu.

En það sem kannski fáir vita er að þegar bankarnir eru stofnaðir var öllum lánunum breytt í íslenskar krónur. Samt var haldið áfram að rukka það í nýjum bönkum með vilja stjórnvalda eins og um erlend lán væri að ræða.

Á þessum tíma fórum við framsóknarmenn fram með þá tillögu að allir fengju 20% afslátt af sínum húsnæðislánum. Það var barist mjög harkalega á móti því en þarna sannast enn og aftur að ekki var bara hægt að afskrifa um 20%, líklega var hægt að afskrifa langtum hærri tölu, en það hentaði ekki stjórnvöldum því að þau voru komin í samningaviðræður við kröfuhafa. Eins og ég hef sagt áður var allt gert til þess að þjónka kröfuhöfum og það kemur fram í fundargerðunum sem verða birtar sem fylgiskjal eftir næstu helgi.

Hér er í dag búið að tala um að bónusgreiðslum þurfi að útrýma úr íslensku samfélagi. Þessar bónusgreiðslur eiga sér stað inni í þrotabúum gömlu bankanna. Hverjir sitja þar? Jú, aðilar sem sitja þar inni og þiggja þessar bónusgreiðslur, og þær væri ekki hægt að greiða út nema um það hefði verið samið við erlenda kröfuhafa í tíð síðustu ríkisstjórnar. Einn mjög virtur hæstaréttarlögmaður sagði í bloggfærslu í síðustu viku: Skrýtin þögnin í kringum hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, skrýtin þögnin í kringum vinstri græna þegar rætt er um bónusgreiðslur.

En þetta er m.a. ástæðan fyrir því.

Ég hef aðeins farið yfir rangfærslur sem birst hafa í þessu máli. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi frá sér langt álit. Fulltrúar þingflokks framsóknarmanna sem sitja í nefndinni skrifa undir það þannig að Framsóknarflokkurinn lýsir sig sammála því sem hér kemur fram. Þetta er mjög ítarlegt, eins og ég sagði. Ég hvet fólk til að lesa álitið hafi það áhuga á að rifja upp og reyna að átta sig á því hvað raunverulega gerðist.

Fólk hefur verið dregið til ábyrgðar í þessu samfélagi allt frá bankahruni og þá er ég að tala um þá aðila sem hafa verið lögsóttir. Þarna er ekki um minna brot að ræða. Þarna er um mikla handvömm að ræða. Þarna er vísað til þess að fjármálaráðherra segist ekki hafa vitað um ákveðna skýrslu sem þó var gefin út á haustdögum 2008, akkúrat um Sparisjóðinn í Keflavík. Fjármálaeftirlitið var með þá skýrslu og vissi af henni alla tíð. Svo er Fjármálaeftirlitinu kennt að nokkru leyti um að hafa alltaf gefið þá framhaldsheimild að bankinn mætti starfa þrátt fyrir að vera ekki með nægilega hátt eiginfjárhlutfall.

Þarna er eitthvað sem gengur ekki upp, einhver sem segir ósatt í þessu máli. Það var vitað á haustdögum 2008 hvað Sparisjóðurinn í Keflavík stóð illa, vitað alla tíð. Fjármálaeftirlitið staðfestir það eins og kemur fram í þessu áliti. Einhverjir eru ekki alveg að segja satt, ekki gott að segja, en það er nánast ómögulegt og barnalegt að halda því fram að fjármálaráðherra hafi ekki vitað um tilvist þessarar skýrslu, sérstaklega af því að sparisjóðurinn var á borði fjármálaráðherrans, í öndunarvél ef svo má segja. Það er óhugsandi að þáverandi fjármálaráðherra hafi ekki vitað af þessari skýrslu.

Ég endurtek: Bara þessi snúningur við Sparisjóðinn í Keflavík kostaði ríkissjóð 13 milljarða. Hér var rætt mikið um þessi mál á síðasta kjörtímabili, margar fyrirspurnir sendar í fjármálaráðuneytið, margar munnlegar fyrirspurnir til þáverandi fjármálaráðherra. Það var lítið um svör eins og hefur komið fram en nú liggur þetta fyrir í skýrsluformi og menn hafa verið dæmdir fyrir minni sakir en kannski þær sem koma fram í þessari skýrslu.