145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[17:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Álitsgerð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hér liggur fyrir er afrakstur mikillar vinnu sem þar hefur farið fram. Aðrir ræðumenn hafa nefnt þá gagnrýni sem fram kom á sparisjóðaskýrsluna og vinnuna sem henni tengdist sem stafaði auðvitað fyrst og fremst af tímalengd og kostnaði sem varð miklu meiri en nokkrar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það skal ekki dregið úr því að viðfangsefnið var erfitt af hálfu þingsins, sennilega rannsóknarspurningarnar settar fram með fullómarkvissum hætti þannig að það var ekki afmarkað nægilega vel í upphafi hvert hlutverk nefndarinnar ætti að vera.

Nóg um það. Þörf er að nefna nokkur atriði í skýrslunni og þessari umræðu sem átt hefur sér stað hér. Í fyrsta lagi hefur í tengslum við skýrsluna verið talað um lagabreytingar á fyrri árum, ferli sem hófst 1985 og stóð fram yfir aldamót og fól í sér breytingu á starfsheimildum og stöðu sparisjóðanna. Ég vil í því sambandi draga fram að menn geta eftir á gagnrýnt einstök atriði í þeim lagabreytingum sem þar áttu sér stað, en á það ber að líta að flestir sem tengdust þessu kerfi þrýstu á um breytingar, einfaldlega vegna þess að menn töldu að sparisjóðirnir yrðu samkeppnishæfari rekstrareiningar með því að umhverfi þeirra og reglur sem þeir færu eftir yrðu meira í samræmi við það sem almennt gerðist um aðrar fjármálastofnanir. Það var skýringin á a.m.k. mörgum þeim breytingum sem áttu sér stað. Þetta vildi ég að kæmi fram í umræðunni.

Annað atriði sem ég vildi nefna er að það sem á endanum reið sparisjóðunum að fullu ef svo má segja var alþjóðlegt fjármálahrun og vegna þess að þeir margir hverjir stóðu illa að vígi stóðust þeir ekki frekar en stóru íslensku bankarnir þennan storm. Þegar við veltum hins vegar fyrir okkur viðbrögðum við þessari fjármálakreppu og þeirri svakalegu stöðu sem fjármálafyrirtækin þurftu að glíma við verðum við að hafa í huga að það var nokkur munur á því annars vegar sem menn þurftu að gera á fyrstu dögunum og vikunum eftir að þessa atburði bar að höndum, síðan ákvörðunum sem teknar voru ári seinna, tveimur árum seinna, við allt aðrar aðstæður, fyrst og fremst þær að myndin af bæði vandanum og aðstæðunum var orðin miklu skýrari en áður.

Haustið 2008 tóku menn ákvarðanir undir gríðarlegri tímapressu án þess að heildarmynd þess vanda sem við var að glíma væri nokkrum ljós, hygg ég, á þeim tíma. Ákvarðanir sem síðar eru teknar og varða þá m.a. örlög sparisjóðanna eru auðvitað ekki teknar undir sömu kringumstæðum. Þetta held ég að menn verði að hafa í huga.

Þá kem ég að því atriði sem aðrir hafa vikið að og hv. síðasti ræðumaður endaði sína ræðu á og það eru þær ákvarðanir sem tengdust sérstaklega Sparisjóðnum í Keflavík. Það er skiljanlegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem þá var fjármálaráðherra og lykilpersóna í mörgum af þeim ákvörðunum sem þarna voru teknar verji sig með þetta. Eftir stendur gagnrýni sem byggir á því að ekki hafi verið nægilega traustar forsendur fyrir ákvörðunum sem voru teknar og höfðu það í för með sér að Sparisjóðurinn í Keflavík eða SpKef var lengur virkur á markaði en nokkrar forsendur voru fyrir. Það sem kemur fram í skýrslunni er að rótin að því að slíkar ákvarðanir voru teknar var pólitískur vilji til að viðhalda sparisjóðakerfinu.

Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson kom inn á áðan eru takmörk fyrir því hvaða ákvarðanir menn geta réttlætt á pólitískum forsendum ef mjög sterk rök hníga í aðra átt og ef upplýsingar eiga að liggja fyrir eða vera mönnum ljósar sem gera það að verkum að öllum má vera ljóst að þeim markmiðum sem menn setja sér verður ekki náð með þeim aðgerðum sem menn grípa til. Ég ítreka þá gagnrýni sem hv. þm. Brynjar Níelsson og fleiri hafa sett fram á þær ákvarðanir sem þarna voru og minni á að þessar aðgerðir voru líka gagnrýndar á síðasta tímabili. Það má segja að mjög margt í þessari skýrslu renni stoðum undir þá gagnrýni sem haldið var á lofti á ákvarðanir á þessu sviði á síðasta kjörtímabili og áður en þessi skýrsla sparisjóðanefndarinnar kom út.

Ég var vitni að því, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að á síðasta kjörtímabili var mjög oft rætt um framtíð sparisjóðakerfisins og lýst yfir áhuga á að viðhalda því. Þingmenn úr öllum flokkum tóku þátt í þeim umræðum. Ég hygg að þegar við sem tókum þátt í þeim í þingsal létum ummæli í þeim efnum falla höfum við ekki haft aðgang að sömu upplýsingum, skýrslum og greiningum sem þeir sem voru við stjórnvölinn höfðu, þeir sem sátu við ríkisstjórnarborðið eða voru í forustu fyrir eftirlitsstofnanir.

Ég held að þó að við getum deilt um hversu mikið tjón varð af þeim ákvörðunum í milljörðum talið sem ákvarðanir af þessu tagi ollu verðum við engu að síður að horfast í augu við að það getur verið skaðlegt og óráðlegt fyrir stjórnmálamenn að ætla að taka ákvarðanir undir þessum kringumstæðum á forsendum rómantískra hugmynda, vil ég leyfa mér að segja, um að hægt sé að viðhalda kerfi sem einu sinni var og einu sinni þjónaði tilgangi en er óvíst að eigi við með sama hætti í breyttu umhverfi.