145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna.

851. mál
[17:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um skýrslu um sparisjóðina og þá erum við aðallega að tala um SpKef, og góð ástæða til. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég tek það mál upp hér. Allt síðasta kjörtímabil gerði ég það og aðrir þingmenn. Það var gert lítið úr okkar áhyggjum sem komu bæði fram í þingsal og í greinum og viðtalsþáttum og annars staðar. Þegar niðurstöður þessarar skýrslu eru skoðaðar kemur í ljós að allar þær áhyggjur sem við höfðum og athugasemdir sem við komum með reyndust því miður réttmætar og má segja að við höfum, ef eitthvað er, vanmetið hvað var þarna var í gangi.

Hér kemur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem var hæstv. fjármálaráðherra á þeim tíma og kemur mest að þessu máli pólitískt ásamt fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, og reynir að gera lítið úr þeim mistökum sem hér voru gerð og kostuðu skattgreiðendur mikla peninga. Það stenst enga skoðun. Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson fór rækilega í gegnum var farið af stað með neyðarlög í miklum flýti á ögurstundu. Það var til ákveðin forskrift að því hvernig átti að byggja upp bankakerfið og henni var fylgt almennt nema þegar kom að sparisjóðunum. Þá var farin önnur leið. Þá voru menn ekki hér á hlaupum í aðstæðum sem áttu sér engin fordæmi hjá íslenskri þjóð. Nei, það var yfir langan tíma. Menn voru með allar upplýsingar sem eru hér tilgreindar, hvort sem það var Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið, Mats Josefsson, Seðlabankinn — allir vöruðu við þeirri leið sem farin var af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar. Málið er mjög einfalt. Vegna þess að farin var þessi leið kostaði það milljarða fyrir skattgreiðendur.

Það stenst enga skoðun að segja að þetta hafi bara snúist um að vernda innstæðurnar eins og hér hefur komið fram hjá sumum hv. þingmönnum. Nákvæmlega það sama var uppi á teningnum varðandi aðra banka, nákvæmlega það sama og varðandi Sparisjóð Mýrasýslu sem var settur strax undir Arion banka og kostaði skattgreiðendur ekki nokkurn skapaðan hlut. Það var ekki farið að vinna í eignunum eins og var gert í öðrum bönkum. Rekstrarkostnaðurinn var náttúrlega til staðar og jafnvel innstæður jukust. Ég var úthrópaður fyrir að benda á að lög um eiginfjárhlutfall varðandi SpKef væru brotin en ég vek athygli á því að hér er staðfest að það var rétt.

Nú er bara sjálfsagt og eðlilegt að menn séu ekki of dómharðir og segi: Það verður að taka mið af aðstæðum o.s.frv. Þarna voru að vísu ekki neyðaraðstæður, ekki út frá neinum forsendum. En það er sjálfsagt að taka mið af því. En mér finnst það svolítið sérstakt þegar vörn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er sú að það eigi að taka mið af aðstæðum. Þá finnst mér að hv. þingmaður ætti að vera sjálfum sér samkvæmur og gera upp landsdómsmálið því þar var svo sannarlega ekki um að ræða neitt umburðarlyndi gagnvart þeim aðstæðum sem þar voru uppi. Reyndar er það þannig að þegar menn fóru þá leið, sem var skammarleg, kemur í ljós að þær ákvarðanir sem voru teknar af þeim sem þar var dreginn fyrir dóm, sú framganga, hafa reynst mjög heilladrjúgar fyrir íslenska þjóð. Reyndar fór hv. þingmaður yfir að það hefði verið tekið út að ríkið kom út í plús og vitnaði þá sjálfur í það varðandi bankana, upp á 140 milljarða króna. Auðvitað var þetta mikið áfall og margir fóru illa út úr því þannig að þetta snýst ekki bara um ríkissjóð, þetta snýst náttúrlega um fólkið í landinu. Ég er ekki að leggja út frá því með neinum hætti, ég er bara að segja að niðurstaða þessarar skýrslu og niðurstaða hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er einfaldlega sú að hér voru gerð mikil mistök sem kostuðu skattgreiðendur mikið fé. Það er enginn vafi á því að ef menn hefðu farið aðrar leiðir eins og var ráðlagt og eins og var gert í tilfellum annarra banka og sparisjóða hefðu skattgreiðendur ekki þurft að bera þennan kostnað, í það minnsta ekki í svo miklum mæli og raunin varð.

Ég vona að almennt í umræðunni sýnum við pólitískum andstæðingum okkar sanngirni. Auðvitað var það þannig að á síðasta kjörtímabili tókust menn á við erfið verkefni. En hins vegar var gert mjög lítið úr því sem við sögðum og bentum á að hér væri á ferðinni og hefur verið staðfest núna. Við fengum litlar þakkir fyrir og fengum reyndar ýmislegt annað sem verður ekki rakið hér. Það er allt í lagi, virðulegi forseti. En mér fyndist rétt að menn væru sanngjarnir gagnvart því fólki og þeim hæstv. ráðherrum sem voru hér haustið 2008 og voru í erfiðustu málunum, þegar þeir ræða þessi mál hér. Betra er seint en aldrei, en ef menn ætla að vera sjálfum sér samkvæmir og segja að í þessu máli, sem var miklu auðveldara viðfangs, þar sem miklu betri upplýsingar lágu til grundvallar en þessi mistök voru samt gerð, þurfi að taka mið af aðstæðum þá hlýtur það að eiga við alltaf. Ég held að menn ættu að vera sjálfum sér samkvæmir ef menn nota það sér til málsbóta því að það er ekkert annað til málsbóta. Það getur enginn haldið því fram eftir að hafa skoðað þessar skýrslur og niðurstöður þeirra að einhverjir sérfræðingar hafi sagt: Þið skuluð fara þessa leið, sem var síðan farin. Enginn sérfræðingur lagði það til. Allir bentu á að sú leið sem var farin væri feigðarför og mundi kosta skattgreiðendur mikið. Það varð því miður niðurstaðan.