145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það var löng upplesning á þingskjölum með þessu frumvarpi. Í gær fóru fram ágætisumræður um málið og margt kom þar fram sem vakti mann til umhugsunar og vert er að ræða og skiptar skoðanir eru um. Það sem við höfum helst verið að gagnrýna, og það hefur m.a. komið fram hjá formanni Bændasamtakanna sem sagði að bændur hefðu verið tilbúnir með sínar áherslur snemma á síðasta ári en það hefði ekki verið fyrr en í lok þessa árs sem tókst að koma samningaviðræðum í gang. Hann kvartaði undan því að ríkið hefði komið vanbúið til starfans. Það kom líka fram í máli hans að margir hafi ekki verið sáttir vegna þess að þingmannanefndin sem skipuð var 2014 hafi aldrei komið saman. Það er einmitt hluti af gagnrýni okkar, þ.e. nálgunin á þetta mál, hverjir það eru sem hafa fengið að koma að því við samningu þess.

Formaðurinn sagði líka að nefnd um eflingu matvælaframleiðslu sem átti að skipa í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafi verið skipuð seint og um síðir og hefur ekki enn lokið störfum. Átti náttúrlega að gera það áður en samningaviðræður hófust. Þetta er allt á sömu bókina lært.

En ég ætlaði að fara inn á nokkur atriði sem eru kannski öll hluti af þessu samtali okkar um búvörulögin og þessa samninga. Mér hefur fundist lítið fara fyrir því í umræðunni hversu stór atvinnugreinin eða greinarnar eru með öllum þeim afleiddu störfum sem eru í kringum þetta, hvort sem um er að ræða afurðastöðvarnar, dreifinguna eða vinnslu matvælanna. Eða bara öll önnur störf sem skapast í kringum landbúnað, sérstaklega í hinum dreifðari byggðum. Þetta skapar mjög mörgum lífsviðurværi. Nýjustu tölur eru í kringum 11 þúsund störf sem tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti, fyrir utan öll hin störfin sem eru tengd þjónustugeiranum sem bændur og fleiri stunda samhliða, t.d. ferðaþjónustan.

Tölfræðin er áhugaverð í þessu sambandi. Það eru t.d. 5–6% af heildarvinnuafli landsins í landbúnaði og 15% af vinnumarkaði landsbyggðarinnar tengjast landbúnaði. Af því eru 28% af landbúnaðarstörfum á Suðurlandi, 31% á Norðurlandi og um 1.400 störf á höfuðborgarsvæðinu tengjast landbúnaðinum. Það gleymist nú oft. Búvörusamningarnir eru líka samningar fyrir fólkið á höfuðborgarsvæðinu ekki síður en fyrir fólkið í afurðastöðvunum sem vinnur við slátrun og vinnslu.

Þegar við hugsum til matvælaöryggisins sem frumvarpið nær til og ekki síður það sem á eftir kemur, þ.e. tollamálið, verðum við sem lítil þjóð í þessum stóra heimi að horfast eins og aðrir í augu við að eftirspurn eftir mat er að aukast. Það er væntanlega eitt af erfiðustu og stærstu viðfangsefnum framtíðarinnar að brauðfæða heimsbyggðina. Þess vegna hljótum við að horfa til fæðuöryggis sem eins af þeim stóru málum sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir. Eins og svo margar aðrar.

Við erum nefnilega í góðri stöðu þegar kemur að gæðum vatnsins og verðmætu ræktunarlandi og þekkingunni til að nýta það. Við höfum tækifæri til að skapa mikil verðmæti í matvælaframleiðslu ef við berum okkur skynsamlega að. Framleiðslan hjá bændum hinum íslensku er afar fjölbreytt, hvort sem við ræðum um kjöt eða mjólk, grænmeti, korn, ber eða krydd eða rófusnakk. Það er ýmislegt hægt að telja upp, miklu meira en margan grunar sem bændur landsins eru að framleiða. Gæði slíkrar vöru byggjast ekki síst á sjálfbærri nýtingu landsins og vatnsins okkar.

En framleiðsluferlar eru líka langir í landbúnaði og geta verið bæði tímafrekir og dýrir. Að sama skapi er mikilvægt fyrir okkur að nýta alla vaxtarmöguleikana til að við getum sinnt þeirri eftirspurn sem nú er í breyttu samfélagi um breytta vöru.

Fyrst ég nefndi hérna tollasamninginn áðan ætla ég líka aðeins að tala um það sem snýr að afleiðingum hans. Sá áróður sem uppi er hafður er helst haldið úti af stóru aðilunum í matvöruversluninni, mér þykja þeir hafa mikil áhrif og vekja oft upp neikvæða umræðu gagnvart landbúnaðinum. Þegar við horfum upp á að afurðastöðvarnar boða 10–12% lækkun á bæði dilkum og fullorðnu fé getum við ekki annað en sagt að það sé í hróplegu ósamræmi við stöðuna í efnahagslífinu þar sem vextir fara lækkandi og salan á lambakjöti innan lands hefur þó vaxið. Eins er heimsmarkaðsverðið á uppleið. Auðvitað vita allir sem vilja vita að sú fákeppni sem ríkir á dagvörumarkaði á Íslandi hefur orðið til þess að vöruverð hefur hækkað, m.a. á kjötvöru. Það er ekkert að skila sér til afurðastöðvanna, bænda eða neytenda. Það lendir hjá versluninni. Hún fer líka fram á að fá innflutning á matvöru sem mestan og helst frjálsan og án tolla.

Innlenda matvælaframleiðslan hefur haldið aftur af verðhækkunum á matarkörfum undanfarin ár því að þær hafa hækkað í verði umfram erlendar vörur. Það undirstrikar mikilvægi þess að við framleiðum íslenskar vörur. Í stóra samhenginu er vert að hugsa um að ef svína- og kjúklingaræktin hrynur hefur það gríðarleg áhrif á kjarnfóðurframleiðslu sem skilar sér þá aftur í hærra verði til þeirra sem eftir standa, t.d. kúabænda. Svínaslátrunin sem rúllar allt árið um kring greiðir niður tapið af rekstri sláturhúsanna í sauðfjárslátruninni sem er í stuttan tíma. Ef þetta mundi gerast er ég hrædd um að kjör sauðfjárbænda sem eru nú með þeim lægstu í landinu mundu endanlega hrynja. Þannig að þetta hangir hvað saman við annað og vert að huga að því þegar fólk talar um styrki.

Mig langar aðeins að tala um dýravelferðina. Settar voru nýjar aðbúnaðarreglur um velferð dýra sem er auðvitað mikilvægt. En það er þessi óhjákvæmilegi kostnaður sem fylgir og er mikill sem bændur taka á sig og sáralitlir styrkir eru frá hinu opinbera, margfalt minni en í nágrannalöndunum. Því miður er það svo að margur bóndinn á erfitt með að uppfylla kröfurnar. Ef við viljum ekki að hér verði bara einhver örfá fjós eða svínabú þurfum við að gera betur. Ég tala nú ekki um þar sem ungt fólk hefur verið að fjárfesta og á litla möguleika á að bæta þeim kostnaði ofan á. Við þurfum að gefa þessu lengri tíma. Ég ítreka í þessu samhengi tillögu okkar Vinstri grænna sem snýr að niðurfellingu greiðslna ef uppvíst verður um dýraníð. Við viljum nýta þetta tækifæri til að innleiða þvingunarákvæði hvað það varðar í gegnum þennan búvörusamning. Ég vona að það verði tekið til umræðu á milli 2. og 3. umr.

Eins og ég ræddi í gær gegnir landbúnaður mikilvægu hlutverki í umhverfismálum. Hér var nefnt að margir bændur stunduðu landgræðslu og skógrækt með það að markmiði að endurheimta og varðveita landgæði sem er gífurlega mikilvægt í baráttunni við loftslagsbreytingarnar. Eitt af því sem ferðamenn sækjast eftir, og við vitum, er náttúran okkar sem hefur orðið ein aðalforsenda ferðamennskunnar. Svo er íslenskur landbúnaður hluti af menningararfi okkar. Það er að mörgu að hyggja í þessu.

En að lokum: Þegar við hugsum í hinu stóra samhengi er þessi aukna velmegun, fólksfjölgun, skortur á vatni, þverrandi olíulindir og margt fleira sem mannkynið stendur frammi fyrir. Gríðarlegar loftslagsbreytingar hafa áhrif á ræktunarmöguleika og margt í hinum stóra heimi krefst nýrra lausna í matvælaframleiðslu. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áætlað á árabilinu frá 2000–2030 þurfi að auka matvælaframleiðslu um 60%. Það er ekkert smáræði. Á sama tíma er vaxandi eftirspurn eftir eldsneyti þar sem framboð á olíu fer minnkandi. Þá eykst ásóknin í lífeldsneyti og aðra endurnýjanlega orkugjafa. Það hefur þær afleiðingar að matvælaverð hækkar því að þá er uppskera bænda notuð til orkuframleiðslu og ýtir undir framleiðslu olíujurta. Það er margt hægt að gera. Til dæmis er ein undirstaða fæðuöryggis kornrækt sem fer vaxandi. Með því að bændur geti framleitt eigið skepnufóður þurfa þeir síður innflutt hráefni.

Í öllu falli er mikilvægt að huga vel að fæðuöryggi okkar sem þjóðar með öllum tiltækum ráðum því breytt heimsmynd krefst nýrrar nálgunar, bæði í hugsunum og lausnum. Við þurfum að tryggja öfluga matvælaframleiðslu sem tryggir fæðuöryggi þjóðarinnar í góðu samstarfi við bændur þessa lands.