145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja umræðuna mikið um breytingar á búvörulögum og búvörusamninga. Hún hefur staðið í talsverðan tíma. Mig langaði fyrst og fremst að nota tækifærið til að ítreka þau atriði sem komið er að í nefndaráliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar þar sem farið er yfir aðdraganda búvörusamninga þar sem skortur á samráði hefur verið gagnrýndur mikið. Af hverju er verið að gagnrýna hann svona hressilega? Jú, af því að hér er feikilega mikilvægt mál undir. Það er í raun framtíðarsýn fyrir innlendan landbúnað og hvernig við viljum sjá hann þróast þar sem ég er ekki í nokkrum vafa um að margir hv. þingmenn úr öllum flokkum hafa mikið til málanna að leggja þegar kemur að því hvernig landbúnaðarumhverfi við viljum sjá. Það er alveg feikilega mikilvægt að hafa öflugan innlendan landbúnað, ekki síst á tímum þar sem við horfum á framtíð þar sem svo miklar blikur eru á lofti þegar kemur að matvæla- og fæðuöryggi. Ég vísa þá sérstaklega til annars álits sem hér liggur fyrir um annað mál sem er álit minni hluta utanríkismálanefndar um tollasamninginn sem er hér á dagskrá á eftir og vísar til þess að matvælaöryggi á Íslandi sé með því besta í heiminum, það sé í raun mikil forréttindastaða. Þegar við horfum á slíkar stórar spurningar sem varða matvælaöryggi, fæðuöryggi, vatnsbúskap og annað, skiptir miklu máli að hér séum við með öflugan landbúnað og öfluga matvælaframleiðslu.

Hins vegar eru menn ekki sammála um leiðirnar til að ná því markmiði. Sjálf tel ég að það sem við eigum að stefna að sé landbúnaður á heimsmælikvarða þar sem hugað er að umhverfissjónarmiðum. Farið er yfir þau sjónarmið í nefndaráliti 2. minni hluta hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, m.a. hvernig við getum tekið á þeim vandamálum sem lúta að beit á beitarlandi, hvernig við getum gert eðlilega stefnu um hvernig við nýtum landið, að landnýtingin sé með sjálfbærum hætti, að ræktað og ræktanlegt land sé skráð, og að við ráðumst í einhvers konar vinnu við rammaáætlun um landnýtingu þar sem virk beitarstjórnun verði einn af lykilþáttum. Það þarf líka að horfa á umhverfisáhrifin á alþjóðavísu, ekki bara út frá beitarlandinu hér heima heldur til að mynda áhrifum á loftslag. Þess vegna leggjum við meðal annars til hvað varðar mælingar á loftslagsáhrifum að ráðist verði í slíkar mælingar, að reynt verði að meta út frá aðferðafræði umhverfismatsáætlana vistspor eða kolefnisfótspor innlends landbúnaðar og að ráðist verði í markvissar aðgerðir til að draga úr slíkri mengun.

Það er nokkuð sem ég heyri og reyni ekki annað en að íslenskir bændur séu mjög áhugasamir um það. Þeir hafa áhuga á að verða grænni, umhverfisvænni, að framleiðsla þeirra sé í takti við umhverfissjónarmið. Mér finnst ég finna fyrir auknum áhuga á lífrænni ræktun og nota tækifærið hér til að fagna því að fyrirhugað er að auka þann stuðning. Ég held að mikil sóknarfæri felist í því. Við þurfum að horfa á hvernig landbúnaðurinn getur orðið á alþjóðavísu, á heimsmælikvarða í umhverfissjónarmiðum. Það eru tækifæri til þess. Við Íslendingar höfum sérstaklega mikil tækifæri til þess. Við þurfum líka að horfa til gæðanna, hvernig við getum í senn horft til mestu mögulegu gæða og tryggt að sóun verði sem minnst. Ég hef t.d. stundum velt fyrir mér af hverju við nýtum ekki meira af þeim afurðum sem til falla á innanlandsmarkaði. Ég vitna þá sérstaklega til eftirlætisdæmis sem ég ræði alltaf þegar ég kemst í tæri við sauðfjárbændur, sem er nýtingin á gærunum; af hverju ekki er betri nýting á sauðargærum á innanlandsmarkaði.

Ég held að þetta séu markmiðin sem við eigum að horfa á. Þess vegna kem ég aftur að skortinum á samráði, en það hefði vissulega þurft að vera miklu meira samráð í aðdraganda svona stórra skuldbindinga sem hugsaðar eru langt fram í tímann. Til þess að skapa atvinnugreininni tiltekið starfsumhverfi er mikilvægt að almennur skilningur sé á því þvert yfir pólitíska flokka. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að unnið hefði verið gott starf í atvinnuveganefndinni um að reyna að efla þetta samráð. Horft er til þess að það verði aukið á næstu árum. En ég held að þetta veki almennar spurningar um hvernig við stöndum að ákvarðanatöku þegar við mótum hér starfsumhverfi heilla greina fram í tímann. Það hefur reynst erfitt. Við verðum bara að horfa á að það hefur reynst erfitt að ná sátt milli pólitískra flokka t.d. þegar kemur að fiskveiðistjórnarmálum eða landbúnaðarmálum. Og þá verðum við að byrja á að setja niður markmiðin. Ef við getum sameinast um að markmiðin séu að íslenskur landbúnaður tryggi undirstöðuatriði þegar kemur að matvælaöryggi og fæðuöryggi, að íslenskur landbúnaður sé í fremsta flokki þegar kemur að umhverfismálum og þegar kemur að gæðum, og að við séum sammála um þessi markmið, get ég ekki ímyndað mér annað en með því að ræða þessi mál betur náum við betri sátt um hvaða aðferðafræði við notum til að ná þeim.

Auðvitað veltir maður fyrir sér hvort hér séu ekki frekar í gangi ákveðin vöruskipti milli stjórnarflokkanna í ljósi þess að á sama tíma er tollasamningurinn lagður fyrir þingið þar sem við vinstri græn og fulltrúi okkar í utanríkismálanefnd, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, bendum á að greiningu á áhrifum þess samnings sé mjög ábótavant. Það er mikil óvissa um kostnað og áhrif á hagkerfi og umhverfi. Þar er til dæmis ekki horft til kolefnisfótsporsins og loftslagsáhrifa, og bent er á það í umsögn sóttvarnalæknis að aukinn innflutningur á ferskum landbúnaðarvörum geti haft í för með sér heilbrigðisvandamál sem íslensk stjórnvöld þurfi að vera sér meðvituð um að bregðast við.

Það er umhugsunarefni að þetta tvennt sé á sama tíma fyrir þinginu. Það finnst mér til marks um að við nálgumst ekki endilega málin með ferskum hætti og reynum að setjast niður og eiga samtal um hvort við getum verið sammála um markmiðin og reynum að finna aðferðir sem leiða að þeim markmiðum, heldur er hér unnið með gamla laginu. Mér þykir það miður þegar um er að ræða slík grundvallarmál eins og innlendan landbúnað, sem við ættum svo sannarlega að geta sameinast um að sé mikilvægur og skipti máli fyrir okkur öll, ekki bara fyrir hinar dreifðu byggðir heldur okkur öll sem hér búum, sama hvort það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umræðuna frekar enda mjög margt komið fram nú þegar og lýk því máli mínu hér.