145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga eru landbúnaðarmál risastórt umhverfismál, eins og hv. þingmaður nefnir, og líka risastórt lýðheilsumál. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði teljum mjög mikilvægt að tengja landbúnaðinn þessum þáttum, þ.e. umhverfi og lýðheilsu. Við nefnum í því áliti sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir skilar inn að framlög hins opinbera eigi að styðja við sjálfbæra landnýtingu. Það felur auðvitað í sér eins og hv. þingmaður þekkir vel að við göngum ekki á auðlindir okkar þannig að þær rýrni eða hverfi. Beitarland er hluti af þessum endurnýjanlegu auðlindum. Þess vegna lagði ég í ræðu minni áherslu á að við ættum að horfa til þess að gera rammaáætlun um landnýtingu þar sem hugað er að þessum þáttum.

Síðan eru það loftslagsmálin. Það liggur fyrir að landbúnaður er mjög mikilvægur í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Þó að greinin geti haft neikvæð áhrif býr hún líka yfir gríðarlegum tækifærum til að hafa jákvæð áhrif á þróun loftslagsmála. Þar getum við rætt um að framleiða landbúnaðarafurðir í nágrenni við neytendur þannig að við drögum úr því vistspori sem fylgir flutningum. Við getum líka horft til gróðurræktar, endurheimtar votlendis og annars slíks þar sem landbúnaðurinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna til þess að draga úr loftslagsáhrifum. Þess vegna leggjum við til að skipaður verði sérstakur samráðshópur til að meta búvörusamningana samkvæmt aðferðafræði umhverfismatsáætlana. Ég held að það væri liður í að við gætum skapað meiri sátt um landbúnaðinn sem er þessi mikilvæga atvinnugrein því að tækifærin eru líka svo mikil. Við búum að einstökum náttúrulegum aðstæðum, til að mynda þegar við horfum til þess hvaða árangri við höfum náð í ylræktinni. Að það sé hægt að rækta hér kirsuber í gróðurhúsum sem eru svo stórkostlega miklu betri á bragðið en þau sem eru flutt langa vegu frá fjarlægum heimshlutum ætti (Forseti hringir.) að vera umhugsunarefni um öll sóknarfærin sem við eigum. Þar hafa orðið stórstígar framfarir á undanförnum árum og áratugum.