145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið efnismikil og góð umræða um nefndarálit atvinnuveganefndar um búvörusamninga eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali, sem ég vil þakka fyrir. Mörg sjónarmið hafa verið reifuð, eðlilega, og misjafnar skoðanir. Auðvitað ætlumst við ekki til þess að það sé ein skoðun eða alger samhljómur um jafn stórt mál og þetta er. Alls ekki. Það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar. Hér er verið að fást við að framkvæma viðamikla stefnu sem er hryggjarstykki í dreifðustu byggðum Íslands, það er eðlilegt að menn hafi á því margar skoðanir.

Það eru samt nokkur atriði sem mig langar að fjalla um og komið hafa fram í ræðum þeirra sem talað hafa í þessari umræðu sem ég tel ástæðu til að við svörum í lok umræðunnar með einhverjum hætti eða reynum að skýra ákveðin atriði.

Í fyrsta lagi um gildistíma og endurskoðunarákvæði þá vil ég segja að hér undir erum við með ramma til tíu ára. Áður höfðu búvörusamningar verið gerðir til sjö ára með engum endurskoðunarákvæðum. Það hafa verið gerðir búnaðarlagasamningar til fimm ára hverju sinni, en nú er í fyrsta sinn verið að gera þennan ramma til lengri tíma. Síðan höfum við tvær öflugar endurskoðanir á samningstímanum. Fyrstu lotunni í þeirri endurskoðun skal vera lokið 2019 og þá taki gildi endurskoðaður samningur eða nýtt form eða hvað sem menn ganga langt í þeim efnum í þeirri endurskoðun sem við römmum sérstaklega inn í tillögu okkar um samráðshópinn, um samtalið um landbúnaðinn. Það kom einmitt fram í umræðunni í dag, nauðsyn þess að taka þjóðarsamtal um landbúnaðinn sem við gerum nákvæmlega tillögur um að nálgast. Það er ekki vafi í hugum okkar í hv. atvinnuveganefnd eða meiri hluta nefndarinnar að það er í raun og veru allt undir í þeirri endurskoðun, gildistími, fjárhæðir, samningalengd í raun og veru. Það verður að ganga um þá endurskoðun með þeim hætti að allt sé undir í þeim efnum.

Ég vil líka svara því til að auðvitað er það ekki svo að þessi samningur girði fyrir það að Ísland geri samninga við önnur ríki um tiltekin atriði, fríverslunarsamninga sem geta snert atvinnugreinina. Alls ekki. Við erum í engu slíku framsali hér og það hefur aldrei verið og hefur aldrei staðið til.

Mikið hefur verið talað um aðdragandann og samráðið. Ég vil bara segja það að þráðurinn í þessari umræðu er einfaldlega sá að við eigum einmitt að hafa samráð og samtal og það er nákvæmlega það sem við rákum okkur á í umsögnum og gestakomum til nefndarinnar hversu miklu máli það skiptir fyrir atvinnugrein eins og landbúnað. Ég held að fáar atvinnugreinar á Íslandi geti raunverulega státað af meira samtali um framtíð sína, a.m.k. þegar við erum búin að ganga í gegnum það samtal sem á að vera hérna næstu árin.

Búvörusamningar eru raunverulega svo miklu meira en bara krónur og aurar. Búvörusamningar eru undirstaðan að fjölmörgum öðrum atriðum sem við getum síðan rakið en höfum minna rætt hér en ættum kannski að gera hærra undir höfði. Auðvitað er þetta andlagið að því að bændur eru áfram vörslumenn landsins, stunda sína landgræðslu eins og þeir hafa gert á undanförnum áratugum og í langan tíma. Bændur varðveita áfram einstaka búfjárstofna, búfjárstofna sem við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að sjá um, verja og vernda. Við erum að undirbyggja að hér verði áfram framleidd heilnæm og góð matvæli.

Það er kannski sá punktur sem mig langar eilítið að staldra við því að margir ræðumenn komu inn á það og við reynum að gera því sérstaklega hátt undir höfði í nefndaráliti okkar, bæði hvað varðar upplýsingagjöf til neytenda, að draga fram þær íþyngjandi kröfur sem við höfum lagt á íslenskan landbúnað sem við teljum vera kröfu til þess að gera vöruna heilnæmari og betri á undanförnum árum og hvernig við ætlum að reyna að halda áfram á þeirri braut. Hér hefur mikið verið rætt um hráefni í fóður sem hefur erfðabreyttan uppruna. Það er nákvæmlega það sem við leggjum til sem hluta af því sem samráðshópurinn á að fjalla um og samræður næstu ára eiga að geta komið botni í umræðuna um framtíð erfðabreyttra plantna í fóðri skepna. Ég er sjálfur sannfærður um það og hef áður sagt það í þessum ræðustól að við eigum að stíga það skref að leyfa ekki slíka notkun og við eigum að geta merkt íslenskar búvörur með þeim hætti.

Aðeins um heilnæmi búvörunnar og það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi í ræðu sinni áðan um sýklalyfjaónæmi og þær varnir sem við þurfum að hafa uppi til þess að verjast slíkum vágesti sem getur m.a. borist með matvælum. Það er stórt og mikið verkefni. Nokkrir ræðumenn fjölluðu um það í sínum ræðum hvernig við gætum staðið að því í framtíðinni. En þetta er mál sem fleiri og fleiri heilbrigðisyfirvöld margra landa eru að taka mjög föstum tökum. Ég held að það sé tímabært, þrátt fyrir okkar góðu stöðu hér á landi og þrátt fyrir að við notum lítið af lyfjum, að við séum upptekin af þessum atriðum. Við erum líka með tiltölulega fáa búfjársjúkdóma og allt eru þetta hlutir sem við verðum að passa á hverjum tíma.

Í nefndaráliti okkar er fjallað um niðurstöður starfshóps um tollamál, hvítakjötshópur er hann stundum kallaður, og við gerum tillögum hans hátt undir höfði í álitinu en í umræðunni hér hefur síðan komið fram að við höfum á einhvern hátt gengisfellt þær. Ég vil um það segja að meiri hluti atvinnuveganefndar er á engan hátt að draga úr vægi þeirra tillagna sem þar eru tíundaðar. Ég held að þær séu hver á sinn hátt mjög nauðsynlegar. Þótt við fjöllum um hverja og eina og kannski helstu annmarka af framkvæmd þeirra, sérstaklega hefur verið rædd tillagan um það hvernig eigi að ráðstafa tekjum af tollum og hvort nota megi þá til að bæta og styðja við framkvæmdir vegna aðbúnaðarreglugerða, þá vil ég bara vekja athygli á því að meiri hlutinn segir með beinum hætti og telur mikilvægt að sem fyrst verði hægt að fullnægja þeim aðbúnaðarreglugerðum sem búið er að setja og fagnar því að veitt verði frekari aðstoð í þeim efnum. Það er boðskapur okkar þótt við gerum athugasemdir við það hvernig því var stillt nákvæmlega upp í þeim tillögum sem við birtum í nefndaráliti okkar og tengist þar af leiðandi lögum um merkingar tekjustofna ríkissjóðs. Ég vil því ekki taka undir að það sé einhver útúrsnúningur eða feluleikur af okkar hálfu að orða þetta eins og gert er.

Það eru flestar búgreinar sem standa frammi fyrir mikilli fjárfestingarþörf, ekki bara alifugla- og svínabændur, það er ekki síður mikil fjárfestingarþörf í nautgriparækt. Það má hafa áhyggjur af því hvernig mun ganga að fjármagna slíkar framkvæmdir og ég held að það sé eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að setjast yfir á næstu árum hvernig lánamál almennt eru. Þetta er svo sem ekkert sérstaklega bundið við landbúnað á landsbyggðinni, en er vissulega verðugt umfjöllunarefni.

Við höfum líka staðnæmst svolítið við heilnæmi og aðbúnaðareglugerðir út frá öðrum vinkli sem ég vil líka taka utan um hér og fjallað er um í nefndaráliti okkar, sem eru þau samkeppnisskilyrði sem íslenskum landbúnaði eru sett. Mér finnst það ekkert endilega mjög heilbrigð samkeppni sem íslenskum bændum er boðið upp á ef þeir eru bundnir í reglugerðir þar sem gengið er lengra en hjá samkeppnisaðilum eða kollegum þeirra í öðrum löndum, bæði hvað varðar rými í gripahúsum, varðandi heimildir þeirra til þess að nota lyf til þess að hafa meiri afköst í framleiðslunni o.s.frv. Það getur ekki verið heilbrigð samkeppni ef við ætlum síðan að leggja það algjörlega að jöfnu í innflutningi hingað til lands og ekki gera neinar athugasemdir við það. Við gerum okkur líka grein fyrir því að við höfum undirgengist skilmála, alþjóðlega samninga og fleira um það að við getum ekki reist tæknilegar viðskiptahindranir í þeim efnum, en þetta er sannarlega verkefni til að taka utan um.

Í öðru þingmáli, virðulegi forseti, sem liggur fyrir þinginu um opinber innkaup tala menn mikið um samkeppnismat, að það verði að fara fram samkeppnismat áður en við förum í stór útboð úti í hinum stóra heimi í innkaupum hjá hinu opinbera. Ég hef velt slíku samkeppnismati heilmikið fyrir mér. Ég held að þau rök sem umsagnaraðilar um það ágæta mál hafa lagt fram, að það geti verið hætta á því að með hömlulausum útboðum á hinum stóra markaði getum við eyðilagt heilu atvinnugreinarnar hérna heima, sé í sjálfu sér röksemdafærsla sem við þekkjum ágætlega úr landbúnaðarheiminum. Það mætti vel hugsa sér að ræða samkeppnismat með einhverjum hætti á þeirri búvöru sem íslenskir bændur eru settir í samkeppni við. En ég minni aftur á að við höfum líka ákveðnar skyldur sem við megum ekki brjóta upp á í alþjóðlegum samningum sem við höfum gert um tæknilegar viðskiptahindranir.

Virðulegi forseti. Um önnur atriði og þau koma vafalaust enn betur fram í umræðum um næsta þingmál, um tollasamninginn, þá eru mörg hliðaráhrif á úrvinnsluiðnað í landinu og matvælaiðnað sem notar hráefni frá m.a. íslenskum landbúnaði. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að það sé líka mál sem varði búvörusamninga og landbúnaðinn til lengri tíma. Við gerum að sérstöku umfjöllunarefni í nefndarálitinu málefni þeirra sem nota íslenskt mjólkurduft og vekjum athygli á því að í sumar var mjólkurduft lækkað til matvælaframleiðenda um 20%. Við leggjum til við verðlagsnefnd búvöru, sem áfram mun starfa samkvæmt okkar tillögu, að búa til reglu á því að íslenska mjólkurduftið fylgi með ákveðnum hætti heimsmarkaðsverði. Um þetta vil ég samt segja að þegar við lækkum mjólkurduft til matvælavinnslu fyrirtækja á Íslandi sækjum við það í raun og veru ekki í neinn annan vasa en til bændanna sjálfra. Það er hinn kaldi veruleiki. Ég skal fúslega játa það að ég er stuðningsmaður þess að við sköpum íslenskum iðnfyrirtækjum öll færi á að nota innlenda hráefnið til framleiðslu og í framleiðsluvörur sínar, en þeim reikningi getum við ekki eingöngu velt yfir á íslenska bændur. Afstaða mín í þeim efnum liggur því fyrir.

Við tökum ekki síður mjög mikið mark á þeirri umræðu sem flestir ræðumenn hafa komið inn á um tryggð íslenskra neytenda við íslenska búvöruframleiðslu og góða vitund þeirra um hollustu hennar og heilnæmi. Nýleg könnun segir okkur að 82% Íslendinga vilja íslenskt kjöt framar öðru. Þetta eru mikil verðmæti fyrir íslenskan landbúnað. Hann þarf ekkert að óttast. Hann mun áfram vera í harðri aðlögun að breyttum tímum. Við getum talað hér um krónur og aura, kerfi, tolla o.s.frv., en fyrst og fremst erum við að tala um atvinnugrein sem varðveitir ekki bara öll þessi gæði, að búa til mat og skapa störf í dreifðum byggðum og þéttbýli, þetta er líka atvinnugreinin sem varðveitir menningu og sögu sveitanna sem við viljum síður en svo veikja. Þetta er atvinnugrein sem er hryggjarstykki í ört vaxandi ferðaþjónustu og ferðaiðnaði á Íslandi og mikilvæg fyrir hann. Við viljum með breyttri nálgun að samningagerð og stefnumótun fyrir íslenskan landbúnað einmitt búa til það umhverfi sem við þurfum á að halda þannig að Íslendingar, íslenskir neytendur og gestir okkar sem landið heimsækja geti keyrt um fallegar og blómlegar sveitir, vel uppbyggðar þar sem bændur eru stoltir af búum sínum, þar sem bændur eru stoltir af búfé sínu og sinni ræktun og síðast en ekki síst af afurðum sínum. — Ég þakka fyrir góðar umræður.