145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá er nú reginmunurinn á þeirri langtímahugsun sem þarf að vera í atvinnugrein eins og landbúnaði eða flugrekstri o.s.frv., sem ég ætla ekki að gera lítið úr að þurfi að byggja á langtímahugsun og langtímaskipulagningu, er að við erum að fást við lifandi dýr og við erum að fást við framleiðslu sem byggir á gróðri. Tún sem sáð var í í vor bera ávöxt á næsta ári og kálfur sem verður í dag til í kú verður væntanlega ekki að nautakjöti fyrr en eftir tvö og hálft þrjú ár o.s.frv. Það er það sem við eigum við um langa framleiðsluferla og fyrirsjáanleika. Þingmaðurinn má alveg reyna að sproksetja það ef hann vill.

Hitt er að við erum að leggja upp með hlut sem ég held að ekkert margir hafi endilega átt von á. Við erum að leggja út í leiðangur sem er mikill sáttaleiðangur, boð um sátt um íslenskan landbúnað og að taka hann upp úr átakafarvegi undanfarinna ára. Sumir kalla þetta umræðustjórnmál eða hvað sem menn taka sér til munns í þeim efnum, en ég held að menn hafi ekki í langan tíma nálgast umræðu um stefnumótun fyrir heila atvinnugrein á Íslandi með jafn metnaðarfullum markmiðum og við erum að setja af stað núna.