145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

lækkun afurðaverðs til bænda.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er að mínu mati alveg klárlega tækifæri fyrir útflutning á íslenskum afurðum, íslensku lambakjöti. Það er rétt að gert er ráð fyrir því í þeim samningum sem við vorum með til umfjöllunar í gær og fyrradag að verð hækki á þessum vörum, það er þá okkar að reyna að hjálpa til að svo verði. Til þess er t.d. átakið Matvælalandið Ísland, til að auka kynninguna og eftirspurnina.

Það er líka mikilvægt að nefna það að nýir markaðir skipta líka miklu máli. Eins og allir þekkja hér erum við með nýlegan fríverslunarsamning við Kína. Það er ekki enn þá hægt að flytja út lambakjöt þangað samkvæmt samningnum, auðvitað geta menn flutt út kjöt og borgað af því tolla og allt það, en við erum að reyna núna að fá viðsemjendur okkar, Kínverja, til þess að koma hér og taka út framleiðsluna á lambakjötinu þannig að það opnist fyrir þann gríðarlega stóra markað. Þá bætist einn stór markaður í viðbót við þann hóp sem við höfum þegar í dag og getum flutt út vöru til án tolla.

Við verðum líka að standa saman um það að tala upp landbúnaðinn, tala upp íslenskt lambakjöt þar sem við viljum selja það dýrara en það er selt í dag. Það er ein forsendan fyrir því að bændur fái meira fyrir sinn snúð, þ.e. að bæði þeir sem flytja út og þeir sem selja innan lands selji vöruna á betra verði. Það er fákeppni á íslenskum matvörumarkaði. Ég ætla að leyfa mér að segja að það er fyrst og fremst verslunin sem stýrir verði til bænda á Íslandi.