145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

mótun stefnu til að draga úr afleiðingum vímuefnaneyslu.

[10:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að þessi nýútkomna skýrsla sé komin fram um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu o.s.frv. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra að því í stuttu máli hvernig framhaldið verði, þ.e. hver næstu skref verða. Nú er það þannig með þessar tillögur að þær ganga skemur en margir vildu, þar á meðal sá sem hér stendur, en auðvitað eru stóru fréttirnar þær að hér er ansi víðtækur hópur búinn að koma sér saman um að taka frekar skrefið í átt að skaðaminnkun og frá þeirri áherslu sem hefur verið meira áberandi í gegnum tíðina, sem hefur verið áhersla á löggæslu og slíkt. Ýmislegt í tillögunum felur nefnilega í sér að ganga í aðra átt í nokkrum málaflokkum, því að vímuefnamál fara inn á nokkra málaflokka. Auðvitað er markmiðið með þeirri þingsályktunartillögu sem þessi skýrsla kom í kjölfarið á og tillögurnar sjálfar til þess fallnar að stýra málaflokknum inn á heilbrigðissviðið. Í því felst að það þarf athygli á þá þætti vímuefnamála sem snúa að öðrum málaflokkum, eins og t.d. almennum hegningarlögum. Ein tillagan er sú að afnema fangelsisrefsingar í lögum fyrir vörslu á neysluskömmtum, önnur er sú að smávægileg fíkniefnalagabrot fari ekki á sakaskrá, sú þriðja að einungis mæling á blóði gildi um vímuefnaakstur, og það varðar umferðarlögin. Ég velti fyrir mér hver næstu skref eru með hliðsjón af því að hér er um breytingar að ræða sem varða fleiri ráðuneyti, fleiri aðila en einungis heilbrigðisyfirvöld. Sömuleiðis hvort eitthvert starf í þeim efnum sé þegar hafið eða hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér hvenær sé hægt að hefja slíkt ef það er ekki hafið nú þegar.