145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

mótun stefnu til að draga úr afleiðingum vímuefnaneyslu.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé fyrir mér að þær tillögur sem þarna liggja fyrir kalli á mismunandi vinnu. Fyrsta verkefnið sem kom upp í hugann þegar ég las þetta var að við þyrftum að koma á samráðsvettvangi. Það er í raun tiltölulega einföld gjörð, þ.e. að búa hann til og koma honum einfaldlega til vinnu. Það sé ég gerast fljótlega að lokinni umræðu vegna þess að í mínum huga eru þetta fyrstu skrefin sem við erum að taka og það er engin ástæða til að stoppa, við eigum að halda þessu verki áfram. Þá er ágætt að koma upp samráðsvettvangi á þeim grunni sem skýrsluhöfundar leggja til. Hann getur svo undirbúið þingmál eða ýtt á eftir því að ráðuneyti sinni þeim verkum sem þeim verða falin, á hvaða sviði svo sem það er.

Með sama hætti sé ég líka fyrir mér að það er bráðnauðsynlegt að styðja við og koma því til leiðar að við (Forseti hringir.) styrkjum og styðjum betur við skaðaminnkandi vinnu sem er í gangi, t.d. Frú Ragnheiði, og það hef ég beðið ráðuneyti mitt að íhuga og undirbúa.