145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef lýst í ræðu um þetta mál gagnrýni minni og töluverðri óánægju með fyrirkomulag hins ríkisstyrkta landbúnaðar eins og það er í dag. Ég hef hins vegar ekki lagt til að sinni niðurskurð eða afnám ríkisstyrkja til landbúnaðar þann hluta sem þetta mál fjallar um og varðar 13,5 milljarða á ári næstu tíu árin. Ég hef ekki vikið orði að því. Ég hef hins vegar gagnrýnt að ríkisstyrkirnir felist einnig í tollvernd og alls kyns viðskiptahöftum. Ég fagna því að málið gangi til nefndar öðru sinni og skora á hv. atvinnuveganefnd að gera reglulega vel grein fyrir áhrifum af þeim breytingum sem nefndin hefur lagt til hvað varðar tollverndina svo hv. þingmenn og neytendur verði upplýstir (Forseti hringir.) um það. Ég leggst ekki gegn því að málið gangi til nefndar en ég mun sitja hjá í þessu máli í þessari umferð.