145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Allt of oft kjósa ákveðnir þingflokkar og ákveðnir þingmenn að hlaupast undan ábyrgð sinni, horfast ekki í augu við gagnrýnina í samfélaginu og taka ekki á þeim vanda sem við þeim blasir og leysa málin eins og okkur ber að gera á Alþingi. Þeir flokkar sem hafa talað hér fyrir hönd Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar eru að fara gera nákvæmlega það sem þessir flokkar hafa ástundað í þessu mikilvæga máli á undanförnum árum, taka gamla samninginn og endurnýja hann, samninginn sem upphaflega var gerður til sex, sjö ára en er núna á sínu tólfta ári. Framlengja hann hvað lengi? Tvö, þrjú ár í viðbót? 15 ár? Nei, virðulegur forseti, við ákváðum að horfast í augu við þetta. Samfylkingin hefur kosið það þegar hún hefur verið við stjórn á undanförnum árum að fresta vandanum, horfast ekki í augu við hann. Þeir geta komið síðan og haft hátt við atkvæðagreiðslu á þessu máli. Það er ódýr málflutningur, billegur málflutningur sem ég vísa til föðurhúsanna og er (Forseti hringir.) þeim samrýmanlegur. Nei, við horfðumst í augu við gagnrýnina, horfðumst í augu við vandamálin og ákváðum að reyna að leiða þau í jörð. Það er það sem við erum að gera, (Forseti hringir.) við erum að stíga stærsta skref sem hefur verið stigið í málefnum (Forseti hringir.) landbúnaðarins til margra áratuga, (Forseti hringir.) þar sem við horfum til framtíðar. (Gripið fram í.)