145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eins og svo oft að frá ríkisstjórnarflokkunum kemur næstbesta tillagan. Hún er til atkvæðagreiðslu hér. Það er sem sagt tillaga um að í verðlagsnefnd mjólkurvara fái minni framleiðendur áheyrnarfulltrúa í nefndina. Fulltrúar stjórnarflokkanna eru nýbúnir að fella tillögu um að þeir fái annan fulltrúann. Þess vegna finnst mér hér stigið skref í áttina, og þetta er skárra en það er í dag, að fulltrúar minni framleiðenda fái áheyrnarfulltrúa. Við styðjum því þá tillögu. Ég veit ekki hvert vandamálið væri við það, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson fjallaði um, að þeir fengju fullgildan fulltrúa. (JónG: Ég er búinn að skýra það.) En ég tók líka eftir því að hv. þingmaður býður upp í dans og ég tek þeim dansi, við að finna farsælli lausn en hér er. Ég ítreka það sem ég sagði að það er oft gott að samþykkja næstbestu tillöguna sem kemur og er vanalega frá ríkisstjórnarflokkunum og því samþykki ég hana.