145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera á hlaupum hér undan því hvernig þeir hafa sýknt og heilagt reynt að drepa þessu máli á dreif og koma í veg fyrir eðlilegar samkeppnisaðstæður á þessum markaði. Við höfum lagt þetta til ítrekað á undanförnum meira en áratug. Það athyglisverða er að hæstv. (Gripið fram í.) núverandi forseti, þáverandi … (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) — Þetta hefur alltaf verið fellt hér í þingsal, (Forseti hringir.) og af Framsóknarflokkunum öllum, af öllum þremur Framsóknarflokkunum (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti vekur athygli á því sem öllum ætti að vera ljóst að hv. 4. þm. Suðvest. hefur orðið.)

Og hæstv. núverandi forseti sagði sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í greinargerð með frumvarpi árið 2007 að þessi undanþága væri óþörf vegna þess að hún hefði skilað fullkomlega árangri sínum. Það kom fram fyrir atvinnuveganefnd að engin þörf væri fyrir þessa undanþágu til að tryggja að mjólk væri sótt á sama verði og seld á sama verði allt í kringum landið. Hér er því bara verið að viðhalda skálkaskjóli til þess að (Forseti hringir.) auka svigrúm einokunaraðila sem margsinnis (Forseti hringir.) hefur sýnt að honum er ekki treystandi (Forseti hringir.) til að fara með það svigrúm sem hann hefur margsinnis misnotað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)