145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í tillögum Samkeppniseftirlitsins er beinlínis verið að reyna að búa þannig um hnútana að innan núgildandi lagaramma sem hv. stjórnarþingmenn hafa viljað standa vörð um, sé samt hægt að koma í veg fyrir að Mjólkursamsalan haldi áfram kúgunartilburðum sínum gagnvart litlum samkeppnisaðilum. Markmiðið með þessum tillögum er að án þess að afnema undanþáguna verði samt svo búið um hnúta að frjáls samkeppni geti verið eins lítið hindruð og mögulegt er á þessum vettvangi. Það er algerlega ótrúlegt að sjá þingmenn stjórnarflokkanna greiða þessu atkvæði og sjálfskipaða talsmenn frjálsrar samkeppni sérstaklega. Það er þá líka þannig, mundi ég segja eftir þessar atkvæðagreiðslur tvær, að ég vil taka hv. formann atvinnuveganefndar á orðinu og bjóða honum upp í dans með það milli umræðna að við setjum þá sólarlag á þetta óyndisákvæði (Forseti hringir.) sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað staðhæft (Forseti hringir.) að hafi náð tilgangi sínum, sé óþarft og sé mikilvægt að losna við.