145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel þessa umræðu um lengd samningsins, þrjú eða tíu ár, vera á nokkrum misskilningi byggða. Samningurinn er sjálfur undirritaður með fyrirvara um árlegt samþykki fjárveitingavaldsins við þeim fjárveitingum sem til hans ganga. Ég get ekki stutt þessa tillögu og er reyndar skapi nær að greiða atkvæði gegn henni. Ég tel að niðurstaðan sem er að fæðast með breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar sé sú skásta sem er í boði við núverandi aðstæður í þessu máli, þ.e. að rammi til tíu ára haldi sér en fortakslaust endurskoðunarákvæði komi inn eftir þrjú ár. Pólitískt og efnislega er málið þannig vaxið að þetta er að mínu mati skásta niðurstaðan sem er í boði. Við höfum þá almennu afstöðu til málsins að styðja þær breytingar á þessu frumvarpi sem við teljum vera til bóta en sitja hjá við afgreiðslu þess í heild sinni og í samræmi við það sitjum við hjá við þessa tillögu þó að mér væri skapi nær að greiða atkvæði gegn henni. (Gripið fram í: Gerðu það.)