145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í meðförum bæði tollasamnings og búvörulaga fyrir Alþingi hafa komið fram athugasemdir um það kerfi sem nú er viðhaft með uppboði á tollkvóta. Þetta kerfi tryggir að alþjóðasamningar sem Ísland hefur undirgengist nái ekki árangri sínum. Það verður hvorki samkeppni í verði né gæðum vegna þess að verð spennist upp og vegna þess að það er borgað svo mikið fyrir tollkvótana freistast innflytjendur til þess að flytja inn ódýrari og lélegri vöru. Það er þess vegna mjög mikilvægt að breyta þessu kerfi, úthluta þessum kvótum með hlutkesti þannig að árangur náist af heildarumgjörð kerfisins. Innlend framleiðsla á að fá mikinn stuðning og fær mikinn stuðning og við styðjum það. En hún á líka að búa við samkeppnisaðhald jafnt í verði og gæðum. Það er mjög mikilvægt að það eigi sér stað til þess að greinin þroskist, þróist og haldi áfram að eflast. Þess vegna segi ég já við þessu.