145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kristjáni Möller verður tíðrætt um hænuskref í þessum málum. Ljóst er að ég minnist þess ekki að sá flokkur sem hann hefur starfað í hafi stigið nein stór skref í pólitík nokkurn tíma [Hlátur í þingsal.] þannig að það er ekki nema von að hann festist í þessu. En hér er auðvitað verið að stíga mjög stór skref. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Verið er að stíga stærri skref en stigin hafa verið í áratugi í að vinna að breytingum og framtíðarstefnu fyrir íslenskan landbúnað.

Þetta ostamál er dálítið sérstakt. Það hefur verið ein helsta gagnrýnin að hér séu ekki á boðstólum ostar sem ekki eru framleiddir á Íslandi. Nú verður heimilt að flytja inn 230 tonn af þeim á ári. Við flýtum gildistöku þess. Þetta átti að trappast inn, þetta magn, á fjórum árum en það tekur allt í gildi 1. janúar 2017. Neytendur munu finna fyrir þessu strax í byrjun næsta árs. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt. (Forseti hringir.) Við munum nota hlutkestisleiðina á þessa vöruflokka einmitt til þess að við endurskoðunina hafi menn tvær leiðir til að bera saman, tvær leiðir til að vinna úr hvor sé betri.