145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju með það frumkvæði sem meiri hluti nefndarinnar tók um að efna til þessa samráðs, þó að það sé vissulega dálítið sérstakt að efna til samtals um hvert skuli haldið eftir að menn eru lagðir af stað. En látum það gott heita. Ég vil líka vekja athygli á því að tillöguflutningur okkar í Samfylkingunni í dag hefur orðið til þess að það hefur skýrst mjög við atkvæðagreiðsluna með yfirlýsingum stjórnarliða að þetta er alvörusamráð sem er að fara af stað. Það verður unnt að breyta. Hér hafa stjórnarliðar lýst því yfir hver á fætur öðrum að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar bindi ekki ríkið umfram þann tíma þegar kemur til endurskoðunarinnar. Það er mjög mikilvægt. Við höldum í það haldreipi. Ég vonast til þess að nefndin vinni betur með málið milli umræðna en það er alla vega ljóst og það er skýrt núna í lögskýringargögnum að hægt verður að breyta á næsta kjörtímabili vilji menn gera grundvallarbreytingar.