145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[13:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Bara svo það sé sagt þá er það ekki út af að mér finnst innihaldslitlum og innihaldslausum tillögum Samfylkingarinnar sem ég tel að það hafi náðst eitthvað í gegn um að samningurinn sé hér í höndum Alþingis á hverju ári. Það er bara laganna hljóðan. Það er bara hluti af stjórnskipan okkar hvernig því er háttað. Samfylkingin hefur ekkert með það að gera. Mér finnst hafa verið mikill tvískinnungur í máli þeirra, alveg sérstaklega í annars ágætlega málefnalegri umræðu sem hefur átt sér stað við atkvæðagreiðsluna, tvískinnungur gagnvart lengd samningsins, tillögur sem eru innihaldslitlar og illa unnar. Og þetta er fólkið sem á undanförnum árum hefur hlaupist undan því verkefni að horfast í augu við það vandamál og þann ágreining sem er um málefni íslensks landbúnaðar og er eitthvað sem við getum ekki búið við til lengri tíma. Það eru mjög mörg góð atriði í þessum samningi (Forseti hringir.) sem ekki hafa fengið umræðu, því miður. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem er mikilvægt að hann taki gildi. Það kemur m.a. að gróðri og landi, (Forseti hringir.) að nýsköpun í landbúnaði, að lífrænni ræktun (Forseti hringir.) og svo mörgu fleiru að það er ekki ástæða til að tefja hér heldur að draga línu í sandinn og hefja stór skref (Forseti hringir.) inn í framtíðina í þágu íslensks landbúnaðar, bænda og neytenda.