145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[14:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í viðtali við hv. forsætisráðherra eftir að hann lagði þetta frumvarp fram sagði hann að tillögurnar hefðu verið til umræðu lengi, reyndar frá árinu 2000, sagði hann. Það er auðvitað ekki rétt. Hann hlýtur að hafa átt við að ákvæði um þjóðareign á auðlindum hafi verið rætt síðan árið 2000. Það var í ársbyrjun 2005 sem stjórnarskrárnefnd var skipuð undir forustu Jóns Kristjánssonar alþingismanns. Henni var einkum ætlað að endurskoða I., II., og V. kafla stjórnarskrárinnar, þ.e. kaflann um valdskiptinguna, um forsetann og um dómsvaldið. En nefndin ákvað að undanskilja engan hluta stjórnarskrárinnar. Nefndin starfaði í tvö og hálft ár og skilaði áfangaskýrslu. Enginn sameiginleg niðurstaða varð af því starfi. Hvers vegna ekki? Vegna þess að gamaldags, hefðbundin stjórnmál ráða ekki við verkefnið. Það sannaðist þá og sannast aftur nú níu árum síðar eftir rúmlega 50 fundi á tæplega þrem árum.

Fram til þess að lög um stjórnlagaþing voru samþykkt í júní 2010 höfðu fjórum sinnum verið lagðar fram tillögur um stjórnlagaþing. Fyrst af Páli Zóphóníassyni, þingmanni Framsóknarflokksins, árið 1948, síðan af Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1995. Sif Friðleifsdóttir lagði, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, fram frumvarp um stjórnlagaþing í febrúar 2009 og skömmu síðar var lagt fram frumvarp þingmanna fjögurra stjórnmálaflokka, þ.e. Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og Frjálslynda flokksins, um stofnun stjórnlagaþings. Af hverju hafa verið fluttar tillögur um stjórnlagaþing? Það er vegna þess að Alþingi hefur ekki ráðið við verkefnið. Verkefnið er að endurskoða stjórnarskrána.

En stjórnlagaráð réði við verkefnið. Fyrir liggur tillaga frá því. Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 svöruðu 64% þátttakenda játandi spurningunni um hvort leggja ætti þær tillögur til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.

Það er því miður lýsandi fyrir vinnubrögð gamla skóla stjórnmálanna að þegar menn höfðu hent út í hafsauga allri þeirri merkilegu vinnu við stjórnarskrá sem unnin var á síðasta kjörtímabili verður niðurstaðan í nýrri en gamaldags stjórnarskrárnefnd að freista þess að ná niðurstöðu um að skrifa fjórar nýjar greinar inn í stjórnarskrána. Hvernig tókst til? Hér er lagt fram frumvarp um þrjár nýjar greinar. Sannast að segja finnst mér svolítið fyndið að hafa tekið þátt í þessu, en ég tel að það sýni vilja okkar í Samfylkingunni til að komast eitthvað áfram með þetta mjög svo áríðandi mál. Ég vil leggja áherslu á að landsfundur okkar samþykkti árið 2015 að að lokinni þessari vinnu skyldi haldið áfram með starf stjórnlagaráðs og vinnuna sem unnin var á síðasta kjörtímabili á nýju kjörtímabili.

Hver er svo afraksturinn af öllum þessum fundahöldum stjórnarskrárnefndar? Á rúmlega 50 fundum náðist að skrifa niður á blað þrjú ný ákvæði og heilmargar blaðsíður af greinargerðum sem skýra eiga innihald greinanna. En auðvitað á það að vera þannig að ákvæði í stjórnarskrá séu svo skýr að ekki þurfi orðabækur til að skilja þau. Þá yrði náttúrlega mikið tekið frá lögfræðingum, nefnilega að útskýra stjórnarskrána og láta sem hún sé þeirra séreign eða sérverkefni.

En það er ekki einu sinni sameiginlegur skilningur í nefndinni á skýringunum öllum saman. Það var sannarlega legið yfir orðalagi þeirra. Ég vil taka dæmi af orðasambandinu „eðlilegt gjald“ í ákvæðinu um náttúruauðlindir. Ég skil „eðlilegt gjald fyrir afnot af auðlindum“ sem svo að auðlindarentan eigi að renna til þjóðarinnar en ekki í vasa útgerðarmanna. En þá má ekki nota orðið „auðlindarenta“ í greinargerð því að það er víst ekki lögfræðilegt hugtak, eða eitthvað í þá áttina. Í stað þess er notað orðið „arðsemi“ sem hefur hreint ekki sömu merkingu og auðlindarenta.

En hvað varðar ákvæði sem hér er lagt fram um þjóðareign á auðlindum almennt óttast ég það út af fyrir sig ekki. Það er vissulega ekki talað um fullt gjald eins og stjórnlagaráð lagði til en það tekur af vafa sem einhverjir vilja enn halda á lofti um að sameiginlegar auðlindir eru þjóðareign og ber að greiða eðlilegt gjald af þeim. Í ákvæðinu segir að taka eigi gjald, ekki að það sé heimilt. Það á að taka eðlilegt gjald. Ýmsir samherjar mínir eru mér ekki sammála í þessu efni en þeim hefur ekki tekist að sannfæra mig um að ákvæðið sé ótækt. Það er sem sagt ekki vegna þessa ákvæðis sem ég sagði mig frá stuðningi við tillögurnar, sem eru afrakstur nefndarinnar. Ástæðan er heildarpakkinn, þ.e. að við þetta ákvæði, sem ég taldi þó unnt að kyngja, bættust allt of háir þröskuldar í ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslur og einnig það hvað krefjast má þjóðaratkvæðagreiðslu um. Umdeildustu ákvarðanir Alþingis nú til dags eru gjarnan teknar í þingsályktunum en ekki ákveðnar með lögum. Ég nefni rammaáætlun. Í ákvæðinu sem hér er lagt fram segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er með lögum, sem samþykkt eru með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi, að ákveða að sama gildi um ályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikilvæga stefnumörkun.“ Þ.e. að hægt sé að vísa þeim í þjóðaratkvæði.

Það er ekkert sem segir að Alþingi eigi að taka þetta mál til meðferðar. Það er í raun þannig að menn þykjast vera að opna fyrir þjóðaratkvæði en útiloka um leið að þau mál sem umdeildust eru komist í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það finnst mér nánast hlægilegt.

Auðvitað var enginn jarðvegur fyrir því að þjóðin gæti haft frumkvæði að því að einhver mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu, ó nei.

Nokkur orð um ákvæði um umhverfi og náttúru. Ekki var vilji í nefndinni til að taka inn ákvæði til verndar óbyggðum víðernum og menn vildu heldur ekki vitna í þriðju stoð Árósasamningsins um rétta málsmeðferð í umhverfismálum, þ.e. heimild almennings til að bera ákvörðun í umhverfismálum undir óháðan aðila. Löggjafanum er eftirlátið að ákveða um þennan rétt sem þó er grundvallarréttur og á því heima í stjórnarskrá.

Síðan var það rúsínan í pylsuendanum sem mér finnst afhjúpa afstöðu ríkisstjórnarflokkanna til þessarar vinnu. Þegar til kastanna kom var ekki vilji til að gera tillögu um ákvæði um framsal valdheimilda. Það er þó óumdeilt að í stjórnarskránni þurfi að fjalla um heimildir, afmörkun og tilhögun við framsal ríkisvalds í þágu friðar og alþjóðasamvinnu. Þröng dægurpólitík veldur því að slíkt ákvæði er ekki meðal þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram. Það er til vitnis um flokkspólitíska afstöðu til allrar vinnunnar. Valdaflokkarnir vilja ekki nýja stjórnarskrá, valdaflokkarnir eru á móti kerfisbreytingum. Þess vegna munu gamaldags stjórnmál ekki ráða við að breyta stjórnarskránni. Þess vegna þurfa nútímaleg öfl að sameinast um að halda áfram með vinnuna sem unnin var á síðasta kjörtímabili, tryggja nútímalega mannréttindakafla í stjórnarskrá, tryggja jafnan atkvæðisrétt allra manna, persónukjör, upplýsingafrelsi og upplýsingarétt, svo eitthvað sé nefnt.

Í lokin langar mig að segja frá því hvað öll þessi vinna við stjórnarskrártillögur á þessu og síðasta kjörtímabili hefur skilið eftir hjá mér. Mér finnst nánast yfirþyrmandi það viðhorf að stjórnarskráin og smíði hennar séu sérstakt verkefni fyrir lögfræðinga eða annarra í akademísku elítunni. Þolinmæði mín fyrir því viðhorfi fer ört þverrandi ef hún er ekki bara þorrin. Stjórnarskráin er vissulega grunnurinn sem öll löggjöf byggir á, grunnlög, eða „grundloven“ eins og það heitir á dönsku. En stjórnarskráin á að vera á mannamáli. Ákvæði hennar eiga að endurspegla þau gildi sem við viljum byggja samfélag okkar á. Það er síður en svo lögfræðilegt eða akademískt viðfangsefni og ég leyfi mér að velta fyrir mér hvort ekki væri betra að kalla listamenn til þessara verka. Listamenn eru mun næmari á umhverfi sitt en lögfræðingar og því kannski hæfari til að skynja þjóðarsálina. En það er einmitt það sem stjórnarskrá á að vera. Ákvæði hennar eiga að endurspegla þjóðarsálina en ekki vera leikvöllur fyrir þrætur lögfræðinga. Það var nákvæmlega það sem gerðist í stjórnlagaráðinu. Þjóðarsálin náði yfirhöndinni. Verkið sem gamaldags stjórnmálin ráða ekki við var unnið. Það þarf að ljúka verkinu og skrifa og samþykkja nýja stjórnarskrá sem byggir á þeirri vinnu.