145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[16:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. forsætisráðherra er lögð fram nokkurs konar niðurstaða, nokkurs konar skilagrein, úr þeirri vinnu sem átt hefur sér stað á yfirstandandi kjörtímabili. Hér hefur verið sagt í umræðunni af hálfu hv. þm. Birgis Ármannssonar að áhersla á að breyta stjórnarskránni í kjölfar hruns hafi verið umdeilanleg því stjórnarskráin hafi ekki valdið hruni og í reynd greitt fyrir því að okkur tókst að vinna okkur út úr hruni. Það er út af fyrir sig alveg rétt að stjórnarskráin gerði það mögulegt, öfugt við stjórnarskrár margra annarra nágrannaríkja okkar, að skipta um ríkisstjórn og efna til kosninga strax í kjölfar hruns, að koma fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildan milliríkjasamning sem er nú ekki mögulegt í stjórnarskrám margra nágrannaríkja okkar og núna aftur að stytta kjörtímabil þegar ríkisstjórn er aftur komin í trúverðugleikavanda. Það má því færa rök fyrir því að stjórnarskráin hafi sýnt býsna mikið þanþol og mikinn sveigjanleika, jákvæðan sveigjanleika á þessum umrótstímum.

Um hitt verður ekki heldur deilt um að það er víðtæk þörf og ákall um stjórnarskrárbreytingar. Við höfum frá gildistöku EES-samningsins verið nokkurn veginn sammála um að það þyrfti með einhverjum hætti að koma fyrir heimild til framsals valds til alþjóðastofnana. Við höfum líka í næstum því 20 ár rætt mikilvægi auðlindaákvæðis. Þetta hefur síðan frekar verið innrammað með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Það er mikilvægt að virða hana ekki að vettugi alveg eins og er rétt að oftúlka ekki heldur hvað spurt var um í henni. Það má ekki virða hana að vettugi. Það er alveg ljóst eftir hana að það er yfirgnæfandi stuðningur við ákveðin efnisatriði sem eru akkúrat til umfjöllunar í þessum tillögum, en það er ekki heldur þannig að hún hafi verið eitt allsherjarsamþykki við heilli stjórnarskrá heldur galt fólk jáyrði við því að lagt yrði fyrir Alþingi frumvarp byggt á tillögum stjórnlagaráðs. Út af fyrir sig var staðið við það af hálfu síðustu ríkisstjórnar þó svo að það mál dagaði uppi. Ég lít svo á að stjórnmálin séu áfram bundin af því umboði.

Bráðabirgðaákvæðið sem við stóðum fyrir í lok síðasta kjörtímabils átti að tryggja að hægt væri að halda áfram að vinna með þetta í þessum anda. Það hefur út af fyrir sig gengið. Mér finnst tvennt mjög ámælisvert í vinnslu málsins á þessu kjörtímabili. Annars vegar að menn hafi misst af tímafrestinum sem var upphaflegt markmið allra að virða, að hægt væri að koma málinu til þjóðarinnar samhliða forsetakosningunum 2016. Um leið og það markmið brást datt allur þrýstingur út úr málinu. Kosturinn við bráðabirgðaákvæðið er að allar stjórnarskrárbreytingar hingað til hafa snúist um nokkurs konar svartapétursleik í aðdraganda kosninga, vegna þess að það er bara hægt að breyta stjórnarskrá í aðdraganda kosninga. Ég held að lærdómur okkar af þessari vegferð allri sé að við eigum að búa til nýtt breytingaákvæði sem gerir ávallt mögulegt að breyta stjórnarskrá, hvenær sem er á kjörtímabilinu, því að það eykur greinilega þrýstinginn í vinnunni.

Mér finnst líka mjög vont að hér sé ekki framsalsákvæði. Við förum á næstu vikum að taka til meðferðar nýjan samning um fjármálaeftirlit við Evrópusambandið þar sem við afsölum gríðarlegu valdi til Eftirlitsstofnunar EFTA sem ég tel að rúmist ekki innan stjórnarskrár eins og hún er í dag. Ég tel satt að segja að ef sú breyting sem við erum að fara að gera á næstu vikum kallar ekki á slíkt framsalsákvæði muni aldrei verða þörf á því. Þá getum við þess vegna gengið í Evrópusambandið án þess að breyta stjórnarskránni. Það er bara þannig. Ef ekki þarf nýtt framsalsákvæði til að rúma þessar gríðarlegu breytingar í fjármálaeftirlitinu þá þarf aldrei að breyta stjórnarskránni, þá er 2. gr. lítils sem einskis virði nema sem almenn stefnumörkunaryfirlýsing.

Virðulegi forseti. Ég held sem sagt að af því að við höfum svo takmarkaða breytingamöguleika á stjórnarskrá kalli það sjálfkrafa á átök. Þess vegna hafi tímabundna ákvæðið verið gott og þess vegna verð ég að segja að ég hef miklar áhyggjur af framhaldinu. Ég sé ekki alveg hvernig við ætlum að vinna þetta mál áfram.

Ég er sjálfur aðdáandi málamiðlana. Mér finnst efnisákvæðin sem hér er um að ræða mjög góð. Ég tel t.d. að þetta sé langbesta þjóðareignarákvæði sem við höfum séð og það hefur þroskast betur og betur í meðförum allra sem komið hafa að því, ég tel að þetta sé betra ákvæði en ákvæði stjórnlagaráðs og mun betra en ákvæðið sem þáverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon lögðu fram í tíð minnihlutastjórnarinnar rétt fyrir kosningar 2009. Þannig miðar okkur áfram í þessu öllu saman.

Þjóðaratkvæðisákvæðið er líka þannig að ekki má gleyma því, þrátt fyrir að menn hafi verið að setja hornin í þröskuldana þar, að það mun verða víðtækara þjóððaratkvæðagreiðsluákvæði en er í nokkru öðru Norðurlandanna. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er það mikill þingræðissinni og mér þykir það vænt um grundvallarhugmynd norrænnar jafnaðarstefnu sem byggð er á sterkum þingræðisstjórnum að ég hef efasemdir um að kippa í einu vetfangi burt grundvallarábyrgð þingræðisins. Mér finnst ekkert að því að það þurfi 25% atkvæðisbærra manna til að snúa við vilja réttkjörins Alþingis. Mér finnst það þvert á móti vera algjört lágmark því annars fer fólk ekki á kjörstað. Af hverju á það að fara á kjörstað til að kjósa þing ef bara lítill hluti getur snúið við ákvörðunum þess þings?

Efnislega finnst mér margt mjög gott í þessu, en vegna þess að búið er að samþykkja umboð í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er mjög erfitt fyrir okkur, fyrst við misstum af tækifærinu að leggja þetta fyrir samhliða forsetakosningunum, að fara núna eftir gömlu aðferðinni að véla um þetta mál. Eina ákvæðið sem gæti mögulega staðist hvað það varðar er þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið sjálft vegna þess að þar er þingið að takmarka sitt eigið vald, afhenda þjóðinni vald sem þingið hefur að öllu leyti í dag.

Ég held að það skipti miklu máli að við finnum einhverjar leiðir til þess að láta umræðu um stjórnarskrá virka á Íslandi öðruvísi en bara með hrópunum og annaðhvort varðstöðu um að gera alls ekki neitt og tefja mál og draga menn á asnaeyrunum eða með því að segja að menn vilji frekar ekkert ef þeir fái ekki allt. Ég held að stjórnmálin í landinu verði að ráða við þetta mál. Mér finnst enginn sérstakur sómi af ummælum um að stjórnmálin ráði ekki við eitthvað og það sé einhver stjórnmálastétt sem sé allt öðruvísi og verri en venjulegt fólk. Það er nú 30% endurnýjun á þingmönnum í hverjum einustu kosningum, þannig að eitthvað af venjulegu fólki virðist nú skolast hingað og verður þetta fólk allt þá óbærileg stjórnmálastétt um leið og það hnoðast hingað inn yfir þröskuldinn? Svona ummæli dæma sig auðvitað sjálf.

Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er sá sami og við stóðum frammi fyrir á síðasta kjörtímabili. Við misstum af tækifærinu til þess að breyta stjórnarskránni þannig að hægt væri að fela stjórnlagaráði bindandi ákvarðanir um að breyta stjórnarskránni. Þess vegna hlutu þetta alltaf að verða tillögur stjórnlagaráðs. Við útfærðum aldrei nákvæmlega hvernig samspili tillagna stjórnlagaráðs og úrvinnslu löggjafans ætti að vera háttað. Alveg sama hvað menn tala um að allir aðrir séu miklu betri til þess að koma með tillögur um stjórnarskrá þá verður ekki fram hjá því litið að það eru tvö þing í röð sem eru stjórnarskrárgjafinn í landinu. Ef tvö þing í röð samþykkja ekki breytingar verða þær ekki að veruleika. Alveg sama hvað hverjum finnst. Við gátum ekki útfært þetta á síðasta kjörtímabili, þess vegna rann málið út í sandinn.

Ég hef áhyggjur af því á næsta kjörtímabili hvernig menn ætla að halda áfram með þetta. Ég er sammála því að það þarf að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012. Ég er sammála því að virða þarf meginlínurnar um að vinna áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs, en ég spyr: Hvernig á það að gerast? Það hlýtur auðvitað að þurfa að gerast í einhverju samtali við það þing sem hér verður komið. Það lítur út fyrir að helmingur þingmanna á næsta þingi, mjög líklega, verði nýr. Erum við að segja sem sagt að þeir þingmenn eigi ekkert að fá að segja um það hvernig stjórnarskráin líti út? Auðvitað ekki. Auðvitað munu þeir hafa sýnar skoðanir á því. Við getum ekkert vitað hverjir koma hér inn. Það fólk getur haft alls konar skoðanir á stjórnarskránni. Það þarf líka að finna einhvern farveg fyrir það hvernig unnt sé að eiga rökræðu um þær tillögur sem stjórnlagaráð setti fram vegna þess að þær voru góðar. Þær voru gott innlegg. Síðan er liðinn umtalsverður tími. Það verður auðvitað framþróun í þessum efnum eins og öðrum. Það er líka eðlilegt að ólík sjónarmið fái að takast á.

Mér finnst menn gleyma því stundum í þessari umræðu að stærstu sigrarnir í réttindabaráttu undanfarinna áratuga hafa gerst með áfangasigrum og menn gleyma því að við þurfum í þessu eins og öllu öðru að leiða saman vísdóm almennings, réttlætistilfinningu þjóðarinnar jafnt sem ráð fagmanna. Við komumst aldrei hjá því. Við getum barið okkur á brjóst, öskrað, gargað, gólað og úthrópað hvert annað eins og við viljum, en þannig verður það að vera. Tvö þing í röð með kosningar á milli munu þurfa að breyta stjórnarskránni. Við þurfum að finna leið til þess að þeir þingmenn sem setjast hér í stóla eftir kosningar í haust geti komið að þessu máli og unnið það áfram til góðs.