145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[16:43]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Enn á ný ræðum við blessaða stjórnarskrána á Alþingi. Segja má að hún hafi verið rædd dálítið mikið á Alþingi í gegnum tíðina. Margt hefur gerst, eins og sumir hafa komið inn á, og hafa verið gerðar sjö breytingar á stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun, sem er svo sem alveg ágætt. Bent hefur verið á að Alþingi ráði alveg við að breyta stjórnarskránni. Hvað varðar það frumvarp sem lagt er fram í dag velti ég fyrir mér tímasetningunni á því, að koma með það 1. september þegar hillir undir þinglok þótt svo sem enginn geti sagt til um hvenær því lýkur hér í haust. En ég hafði viljað sjá það miklu fyrr. Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Óttars Proppés, formanns Bjartrar framtíðar, var það ekki óskastaða í þeirri nefnd sem skipuð var.

Þegar hún var skipuð á sínum tíma runnu á mig tvær grímur þegar ég sá hver var skipaður formaður hennar. Sá merki maður, dr. Sigurður Líndal lagaprófessor, hefur alltaf sagt að hann sé á móti öllum breytingum á stjórnarskrá. Það var dálítið skrýtið að heyra að hann hefði verið gerður að formanni þessarar nefndar. Það fékk mig til að hugsa að enn eitt skiptið væru stjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, að fara af stað í einhvern leiðangur án þess að meina neitt með því. Ég segi þetta vegna þess að þeir skipa þennan mann sem formann. Svo breyttist það náttúrlega 2014 og Sigurður Líndal sagði að hann hefði enga trú á því að neitt kæmi út úr þessari nefnd því að honum fyndist að menn hefðu engan áhuga á að breyta stjórnarskránni. Fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan, sem setið hefur í fleiri en einni og fleiri en tveimur stjórnarskrárnefndum, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki meðmæltur því að verið sé að breyta stjórnarskránni. Í gegnum tíðina hafa það helst verið þeir sem hafa stoppað alla vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár.

Ég ætla nú samt að segja að mér fannst sú vinna sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili við gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir okkur Íslendinga vera eitt glæsilegasta framtak sem nokkur ríkisstjórn hefur hrundið af stað. Þar kom hún til móts við vilja almennings sem krafðist þess á fjölmörgum fundum á Austurvelli og víðar að samin yrði ný stjórnarskrá. Ekki einungis kom hún til móts við þær óskir heldur uppfyllti einnig hún óskir og loforð sem gefin hafa verið þjóðinni allt frá því að stjórnarskráin var fyrst samþykkt árið 1944.

Eftir því sem ég hef lesið mér til um málið og heyrt um það var ætíð ljóst að sú stjórnarskrá sem þá var samþykkt ætti að vera til bráðabirgða. Hefjast átti handa við að smíða nýja við fyrsta tækifæri. Ég held að það sé alveg rétt. Ef maður skoðar gamlar ályktanir frá miðstjórnarfundum Framsóknarflokksins og fleira kemur í ljós að smíða átti nýja stjórnarskrá. Ég gerði það að gamni mínu að ég prentaði út forsíðuna af Degi frá Akureyri síðan 1946, gefinn út fyrir 70 árum síðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sérstakt stjórnlagaþing setji lýðveldinu nýja stjórnarskrá.“

Þetta var forsíða Dags fyrir 70 árum síðan.

„Hermann Jónasson flytur stjórnarskrárfrumvarp á Alþingi.“

Nú flytur hæstv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins í dag, Sigurður Ingi Jóhannsson, nýtt frumvarp um stjórnarskrá. Ég held áfram að lesa, með leyfi forseta:

„Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, flytur á Alþingi stjórnarskrárfrumvarp um kosningu sérstaks stjórnlagaþings, er setji lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Þing þetta verði kosið í sérstökum kosningum og hafi það lokið störfum fyrir marzlok 1948. Nýju stjórnarskrána skal síðan bera undir þjóðaratkv.greiðslu. Eins og kunnugt er lofuðu stjórnarflokkarnir því hátíðlega í stjórnarsáttmálanum, að stjórnarskrárfrv. skyldi lagt fram á því þingi, sem nú er að ljúka störfum. Ekkert hefir bólað á framkvæmdum og nýlega lét formaður stjórnarskrárnefndarinnar, Gísli Sveinsson, alþm., svo ummælt í blaðaviðtali, að málið svæfi.“

Hér gengur í salinn hv. þm. Katrín Jakobsdóttir. Hún nefndi það líka í ræðu sinni áðan að við værum alltaf að hjakka í sama farinu. Maður veltir fyrir sér hvort svo sé.

Það má vissulega deila um hvort sá tími sem stjórnlagaráð fékk til að smíða nýja stjórnarskrá hafi ekki verið of knappur og hafa margir bent á að svo hafi verið. Fræðimenn hafa t.d. bent á að við gerð nýrrar stjórnarskrár þurfi að gefa góðan tíma til að ígrunda vel hvernig við viljum hafa hana. Gefa okkur tíma til að hugsa vel um hver séu gildi okkar, hugsjónir og undirstöðumál og flana ekki að neinu. Miklu máli skipti að við leggjum það á okkur að uppgötva og móta þá siði og þau lög sem henta okkur sem þjóð, að þörfin fyrir nýja stjórnarskrá sé sprottin af þeirri þrá okkar að lifa í samfélagi þjóðanna sem þroskuð, siðuð og sjálfráða þjóð.

Nú er ég enginn sérfræðingur í gerð stjórnarskrár, ekki frekar en nokkur annar, nema kannski helst hv. þm. Birgir Ármannsson sem verið hefur svo lengi í því. En ég ber þá einlægu ósk í brjósti að við sem þjóð getum smíðað nýja stjórnarskrá í sem víðtækastri sátt. Stjórnarskráin er sáttmáli þjóðarinnar við sjálfa sig. Þar eru grundvallarreglur samfélagsins sem verða að vera með þeim hætti að allar skynsamar manneskjur sem geta greitt þeim atkvæði sitt fái þá tækifæri til þess. Það er lykilatriði í mínum huga og okkar í Bjartri framtíð að svo verði. Það er eiginlega ótækt að verið sé að semja stjórnarskrá sem er í mótsögn og fólk hreyfir mótbárum við hér á þingi því að við setjum náttúrlega lögin. En því miður virðist einn flokkur standa fremur öðrum vera á móti þessu. Þá veltir maður líka fyrir sér sem sumir hafa sagt: Það verður bara að samþykkja nýja stjórnarskrá án þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái að koma að málum. Mér finnst það ótækt. Þetta er stærsti stjórnmálaflokkur landsins og hefur lengi verið. Það er mjög mikilvægt, finnst mér, fyrir lýðræði í landinu að stærsti stjórnmálaflokkur landsins sé sáttur við það.

Undir lok síðasta kjörtímabils börðust Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn af hörku gegn því að stuðst yrði við hina nýju stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hafði samið og þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kom mjög á óvart að Framsóknarflokkurinn skyldi berjast svo hatrammlega gegn því frumvarpi. Ef við skoðum t.d. kosningabaráttu Framsóknarflokksins fyrir kosningar 2009 gáfu framsóknarmenn út sérstakt myndband þar sem þeir sögðu hvernig smíða ætti nýja stjórnarskrá. Það var nánast farið nákvæmlega eftir því. Hvað breyttist hjá þeim? Þetta lýsir svolítið íslenskum stjórnmálum. Þau eru bara á móti því af því að þau voru ekki með í að samþykkja það. Samt gáfu þau út loforð til kjósenda sinna og sérstakt myndband þar sem var lýst nákvæmlega hvernig gera ætti nýja stjórnarskrá, og var nánast algerlega farið eftir því í stjórnlagaráði. En það er nú eins og það er.

Svo kom náttúrlega í ljós eftir síðustu kosningar að þessir tveir flokkar hlutu meiri hluta á þingi sem börðust hatrammlega gegn stjórnarskránni. Þá fer maður að velta fyrir sér: Er þá svona mikil löngun meðal þjóðarinnar að breyta stjórnarskránni? Maður veltir því oft fyrir sér. En það er nú svo margt sem maður skilur ekki. Þeir flokkar sem börðust harðast fyrir því að stjórnarskrá yrði breytt fengu ekkert brautargengi við kosningarnar 2013. Þá var enn ein nefndin skipuð til að reyna að leiða þessi mál til lykta. Afrakstur af vinnu þeirrar nefndar er það frumvarp sem lagt er fram í dag. Ég og við í Bjartri framtíð styðjum það. Það er til bóta og er þó alla vega viðleitni til að reyna að breyta stjórnarskránni. Það er skárra, t.d. er ákvæðið um umhverfið og auðlindirnar miklu betra en það sem fyrir er. Þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það er stærsta lýðræðisbót sem við getum talað um að 15% kosningabærra manna geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það mundi breyta gríðarlega miklu í pólitík ef það væri hægt og mundi veita stjórnmálamönnum miklu meira aðhald en þeir hafa í dag. Við höfum sýnt að það er bara geðþóttaákvörðun hvort farið verður í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki ef undirskriftir safnast.

Svo er það annað, þegar maður veltir því fyrir sér varðandi stjórnarskrá að við berjumst sem þjóð, stolt, sjálfstæð þjóð hér út við ysta haf — stjórnmálamenn berjast fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldinu og berja sér á brjóst fyrir hvað við erum æðisleg þjóð — að hún skuli sætta sig við að notast við stjórnarskrá sem samin var í byrjun 19. aldar af Dönum. Það finnst mér skrýtið. Af hverju gerum við þetta ekki sjálf? Erum við ekki hæf til þess? Það virðist ekki vera. Sumum finnst það ekki. Ég er á því að við eigum að samþykkja frumvarpið en ég hef enga trú á að það fái einhvern framgang í þinginu. Þetta er allt of stuttur tími. Hver sem örlög þessa frumvarps verða ber ég þá einlægu von í brjósti að við höldum áfram að vinna við nýja stjórnarskrá og notum vinnuna sem stjórnlagaráð samdi á síðasta kjörtímabili sem módel. Samþykkt var að stuðst yrði við hana. Það er mjög gott.

Það er örugglega margt sem þarf að breyta í því og gera betur en þetta er þá stjórnarskráin okkar. Ég vona svo sannarlega að sú verði raunin að við vinnum í sátt og samlyndi að því að breyta þessu. Það er svo gríðarlega mikilvægt, eins og í öllum öðrum málum, að vinna saman í sátt og samlyndi að þessum hlutum því að þeir eru mikilvægir, grundvöllur lýðræðis í landinu. Það á við um fleiri mál en þetta, eins og sjávarútvegskerfið og landbúnaðarkerfið og allt það sem búið er að halda þessari þjóð í rifrildi um áratugum saman og skilar okkur aldrei neinu. Við rífumst bara endalaust um það. En stjórnarskráin er gríðarlega mikilvægt plagg og það þarf að ríkja um hana sátt. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn fari með okkur hinum í landinu í þá vinnu að breyta stjórnarskránni svo við getum verið stolt af henni, því að þeir virðast alltaf vera sá þröskuldur sem komast þarf yfir. Það er því miður staðreynd. Það er leitt því að við þurfum á því að halda að þeir standi með okkur eins og allir aðrir.