145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er hið áhugaverðasta mál og vissulega mikið tilefni til að ræða það aftur og aftur. Ég verð að segja að mér finnst þó gott að hingað sé komið þingmál þar sem við getum talað um þetta sem það er frekar en af og til í störfum þingsins og viðlíka dagskrárliðum sem bjóða ekki upp á mikla umræðu eða mikinn tíma. Ég hef heyrt hér að sumir virðast álíta þessar tillögur einhvers konar málamiðlun. Ég er sjálfur almennt hlynntur málamiðlunum, ekkert alltaf en stundum. Ég er vissulega ekki á móti þeim í eðli sínu. Það er tilhneiging í íslenskri pólitík til að heimta allt og annars ekkert og að telja að um leið og maður fái völdin fái maður bara að gera það sem manni sýnist. Sem betur fer er það ekki þannig. En þetta er ekki málamiðlun. Ef þetta væri málamiðlun væru talsmenn allra flokka á málinu. Svo er ekki. Það er einungis hæstv. forsætisráðherra sem leggur þetta fram sem þingmannamál. Ástæðan er sú að þetta er ekki málamiðlun. Þetta snýst ekki um að fá annaðhvort allt eða ekkert eins og hv. 9. þm. Reykv. n. fór yfir áðan heldur snýst þetta um að bera virðingu fyrir lýðræðinu, fyrir þeim lýðræðislegu vinnubrögðum og á köflum tilraunum til lýðræðislegra vinnubragða sem hafa tíðkast áður, og að bera virðingu fyrir því að núna, sérstaklega eftir hrun en af hálfu sumra manna og af minni hálfu löngu fyrir hrun, er komin aukin krafa í samfélaginu um lýðræðislegri vinnubrögð. Ég veit vel að stjórnarskrárbreytingar hafa oft átt sér stað á lokuðum fundum einstakra aðila sem síðan bera þær fram og þá með nafni formanna flokka til að leggja fram og afgreiða á Alþingi. En það er meiri krafa núna. Meiri krafa um gagnsæi, aðgengi almennings að upplýsingum, umræðu og gögnum, og aukna þátttöku almennings í ákvarðanatökunni sjálfri. Það er gagnvart þeirri kröfu sem meiri hlutinn sem hefur starfað á þessu kjörtímabili hefur brugðist.

Ferlið sem hér var farið í var lokað ferli. Það vekur óhjákvæmilega tortryggni. Þegar við í þingflokki Pírata og helstu trúnaðarmenn vorum að ræða um þessar tillögur var spurningin alltaf: Hvar getum við talað um þetta? Getum við farið á opinn fund og básúnað um þetta og haft streymi á netinu um efnislegar tillögur og reynt að finna út hvað við mundum vilja bæta? Nei. Við gátum það ekki vegna þess að þetta var lokað ferli. Og það skapaði tortryggni. Ég get núna sagt fyrir sjálfan mig að í b-liðnum sem varðar auðlindirnar þykir mér orðalagið „að jafnaði eðlilegt gjald“ alveg eðlilegt og rök fyrir því. Margir eru þeirrar skoðunar að það eigi að standa fullt gjald og það þurfi að vera fullt gjald. Það er umræða sem er algerlega þess virði að taka. En ég skal segja, virðulegi forseti, hvað það var sem hindraði þá umræðu. Það var lögmæt og réttmæt og rökrétt tortryggni gagnvart þessu ferli sem gerði að verkum að um leið og tillögurnar voru komnar fram, þá kom þetta með leysigeislum og reyk út úr einhverju herbergi sem almenningur hafði ekki haft neina aðkomu að, enga. Það gengur ekki lengur, virðulegi forseti. Það er bara ekkert í boði lengur miðað við þær nútímakröfur sem ættu að þykja sjálfsagðar í nútímasamfélagi, sérstaklega þegar við eigum svo auðvelt með það með þeim tækniframförum sem hafa átt sér stað síðustu ár og áratugi.

En talandi um lýðræðið þá ætla ég að fara aðeins yfir ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur því að það þykir mér bæði áhugaverðast og í raun og veru mikilvægast, án þess að endilega draga úr hinum, því hin ákvæðin eru líka mjög mikilvæg. Það var sagt hérna áðan að takmarkanirnar sem eru settar þarna inn, 15% kosningarbærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp og 25% þeirra þurfa að synja lögunum til þess að þau verði felld úr gildi, séu þröskuldar gerðir til þess að ferlið verði ekki misnotað. Það að 10% kosningarbærra manna geti kallað eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp sem Alþingi hefur samþykkt er ekki misnotkun á ferlinu. Það er það bara ekki. Ég ætla að halda stuttan pistil hér á eftir undir öðrum dagskrárlið um hvernig sé hægt að misnota þjóðaratkvæðagreiðslur því að það er hægt. En að 10% kosningarbærra manna kalli eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt eða þingsályktunartillögu eða hvaðeina, er ekki misnotkun. Það er bara eðlilegur hluti af nútímalýðræði. Það er mögulegt, auðvelt, ódýrt og það er engin góð ástæða til að gera það ekki. Það eru engin lögmæt rök fyrir því að fara í þessar svakalegu takmarkanir. Þetta þarf ekki að vera svona. Það þarf ekki að vera 15%, það má vera 10%. Það þarf ekki að vera þessi 25% þröskuldur. Það má sleppa honum alfarið og reyndar er hann til trafala. Og það er ástæðan fyrir því að ég á hvað erfiðast með c-lið frumvarpsins.

Þótt 15% talan um hlutfall kosningarbærra manna sem þurfa að synja lögum sé vond, hún er óþægileg, mér finnst þetta of mikið, er hún samt ekki svo slæm að ég mundi gefast upp á málinu. Hins vegar er einnig til staðar synjunarþröskuldur, eins og ég kalla hann, sem er sá að 25% allra kosningarbærra manna — ekki þeirra sem mæta á kjörstað heldur allra kosningarbærra manna — þurfa að mótmæla lögunum, þurfa að greiða atkvæði gegn þeim. Þótt þetta virðist kannski í fljótu bragði mjög sjálfsagður öryggisventill einhvers konar hefur þetta áhrif. Hann hefur mjög andlýðræðisleg áhrif, ekki bara ólýðræðisleg heldur andlýðræðisleg. Þau áhrif eru að þessi þröskuldur gerir heimasetu að afstöðu. Þá taka menn afstöðu með því að sitja heima. Ef þeir eru á móti því að málið verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu eða búnir að mynda sér einhverja skoðun hafa þeir pólitískan hag af því að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hvetja vini sína til að mæta ekki, jafnvel halda þeim uppteknum ef þeir eru þannig innrættir og það er til nóg af þannig fólki. Það ættu nú menn í sumum flokkum að vita. Það er þessi 25% þröskuldur sem gerir mér erfiðast fyrir í þessu máli, hann er svo andlýðræðislegur.

Það hafa komið fram ýmsar og að mínu mati lögmætar áhyggjur af upptöku nýrrar stjórnarskrár sem grundvölluð væri á frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er stórt plagg. Þar er mikið af ákvæðum og sjálfsagt að ræða það. Sú umræða fékk ekki að klárast á síðasta kjörtímabili. Breytingartillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — það voru ekki einu sinni greidd atkvæði um þær. Sú umræða hefur ekkert klárast. Ef menn vilja ræða hana, ræðum hana. Í staðinn fyrir þetta ferli hér. Fara aftur í opið, lýðræðislegt ferli, setjum nýtt stjórnlagaþing, mönnum hefði getað dottið það í hug. Útbúa lista yfir þau vandamál sem menn telja að fylgi frumvarpi stjórnlagaráðs, segjum réttaróvissa vegna óþarfra orðalagsbreytinga. Þetta eru vandamál sem hægt er að laga. Það hefði verið hægt að fara í opið, lýðræðislegt ferli til þess að laga þessa ferla. En það var ekki gert. Þess í stað voru tekin fjögur ákvæði, þau sett í lokaða nefnd og eftir rúmlega 50 fundi á þremur árum næst ekki einu sinni samstaða á þingi um þau. Í þokkabót var sett inn þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði til bráðabirgða í stjórnarskrá, eins og við munum, var staðfest í upphafi kjörtímabilsins, með 40% samþykkisþröskuldi sem að mínu mati er algerlega galið. En það á ekki einu sinni að fara þá leið. Það á ekki einu sinni að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi ákvæði samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum hér. Það er eins og menn noti hvert einasta tækifæri til að draga úr öllum lýðræðislegum áhrifum. Af hverju ekki bara að gera þetta opið? Af hverju ekki að gera þetta lýðræðislegt? Ef menn vilja fara í efnislega umræðu um allt hitt, gerum það þá. En þetta þarf ekki að vera svona.

Virðulegi forseti. Þetta er engin málamiðlun.