145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[17:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða frumvarp um breytingu á stjórnarskipunarlögum. Það hefur verið farið um víðan völl í dag og sitt sýnist hverjum. Mér finnst þingmenn vera nokkuð fastir í fortíðinni því að gerðar hafa verið tilraunir undanfarin ár, síðan stjórnarskrá var samþykkt, til að breyta henni. Sumar hafa tekist vel og tekist mjög vel meira að segja, t.d. þegar mannréttindakafli var settur inn í stjórnarskrána 1995. En svo er vísað í stefnu stjórnmálaflokka, tillögur sem ákveðnir þingmenn hafa komið fram með og annað og hafa ekki hlotið brautargengi og það notað sem rökstuðningur fyrir því að stjórnarskráin sem við búum við sé ómöguleg. Ég skil ekki alveg svona málflutning, sérstaklega í ljósi þess að sú vinna sem er lögð hér fram náðist í pólitískri sátt, í nokkuð pólitískri sátt. Ég merki það í málflutningi alla vega einhverra þingmanna Pírata að þeir eru mjög ósáttir. Þá vísa ég í ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. En svo verður að vera.

Það var talað um að lítil skref væru betri en engin skref. Það sáu allir að sú leið sem var farin á síðasta kjörtímabili, að umbylta stjórnarskránni og gera tillögur að breytingum á henni í heilu lagi, gengu alls ekki upp stjórnskipulega, enda komu umsagnir inn um það mál á sínum tíma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem mælt var mjög sterklega á móti því, það mundi skapa stjórnskipulega óvissu og óróa hér á landi. Ég er alveg sammála því, enda var það ferli allt saman hreint með ólíkindum. Það átti að útvista stjórnskipunarvaldi þingsins inn í stjórnlagaráð en Hæstiréttur dæmdi þá kosninguna fyrir rest ólöglega. Viðkomandi aðilar voru kosnir af þinginu og var þá sú hugmynd akkúrat farin að þetta væri þannig að þjóðin hefði kosið þetta fólk.

En ég ætla ekki að dvelja við fortíðina heldur tala um framtíðina. Ég vil taka sérstaklega eina tillögugreinina fyrir, tillögugrein b., sem er auðlindaákvæðið. Loksins er það að verða að veruleika að það er að takast pólitísk sátt um að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. Það hefur verið stefna Framsóknarflokks um langa hríð að það fari inn í stjórnarskrána. Jafnframt ber þess að geta að nú verður að setja mikinn kraft í að uppfylla það mál sem ég hef lagt fram á sjö þingum, að auðlindir náttúru Íslands skuli vera skilgreindar, skilgreint hverjar þær eru með tæmandi upptalningu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það getur breyst í tímanna rás. Auðlindir geta horfið og auðlindir geta komið, eins og t.d. þegar makríllinn kemur, splunkuný auðlind. Þá þarf þessi vinna alltaf að vera í gangi.

Áður en náttúruauðlindaákvæðið í stjórnarskránni tekur gildi verður þessi vinna að vera búin að fara fram. Þess vegna minni ég enn og aftur á mál mitt sem ég hef lagt fram á hverju einasta þingi síðan ég tók sæti á Alþingi. Það fékk ekki brautargengi hjá síðustu ríkisstjórn eða þeim þingmeirihluta sem sat þar, sem er mjög einkennilegt því að vinstri grænir hafa oftast kennt sig við náttúruvernd og viljað vernda auðlindirnar. Það hefur heldur ekki náðst í gegn núna. Ég fékk af því fréttir að þessi vinna væri farin örlítið af stað í umhverfisráðuneytinu, enda heitir ráðuneytið umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það er mjög bagalegt þegar svona góð mál eru lögð fram í þinginu af þingmönnum, þetta er gott mál að mínu mati og annarra því að í tillögunni raungerist að náttúruauðlindaákvæði fari inn í stjórnarskrána, að þau skuli ekki fá brautargengi í þinginu, þrátt fyrir að þetta séu þingmannamál.

En nú horfir til betri vegar. Vinnan er farin af stað. Það þarf að vanda þá vinnu mjög mikið því að þegar upp er staðið verður þetta að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að draga í efa hverjar náttúruauðlindir landsins eru. Þetta snýr líka að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég hef sagt í ræðu og riti að það er mjög ósanngjarnt að ein atvinnugrein sem nýtir náttúruauðlindir beri svo háan skatt til samfélagsins og sé ein undanskilin því að greiða auðlindagjald til samfélagsins. Við erum með heitt vatn, kalt vatn, með alls konar gæði landsins, alls konar náttúruauðlindir sem bera ekki þetta gjald. Fiskveiðistjórnarkerfið er byggt upp þannig að það skal koma veiðigjald í ríkissjóð fyrir nýtingu á náttúruauðlindinni og er það eina náttúruauðlindagjaldið sem er greitt eins og stendur til ríkissjóðs. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt ákvæði, til að gæta jafnræðis á milli atvinnugreina. Ég lýsi mig mjög ánægða með að þetta skuli loksins vera að raungerast í þessu frumvarpi.

Varðandi tillögugreinina sem á að vera ný 79. gr. er ég nokkuð efins um hana. Mér finnst hún mjög opin. Það verður erfitt að láta reyna á það hvernig á að túlka þetta og mun líklega skapa Hæstarétti mikla vinnu næstu 10–15 árin ef þetta verður að lögum, eins og gerðist þegar mannréttindaákvæði voru samþykkt sem ný stjórnarskipunarlög inn í stjórnarskrána. Það tók 10–15 ár fyrir Hæstarétt að vinna úr því hvað mannréttindaákvæðin þýddu raunverulega og á hverju fólk gat sótt rétt sinn o.s.frv. Það verða allir að átta sig á því að þegar stjórnarskrá er breytt þarf mikla lagatúlkun á því og þá má reikna með að fólk fari að sækja rétt sinn fyrir dómstólum byggðan á stjórnarskrárákvæðunum. Mér finnst þessi grein sem snýr að náttúru Íslands og heilnæmu umhverfi, för um landið og fleiru, afar opin og ekki nægilega skýrt hvað er átt við þarna. Þetta er óskaplega fallegt á pappír og það er svolítið sólskin yfir þessu, það er ekki hægt að segja annað. En mér finnst þetta of opið og þetta á heima í náttúruverndarlögum en ekki stjórnarskrá að mínu mati. Það hef ég áður sagt og áður lýst yfir og lagði áherslu á það þegar verið var að breyta náttúruverndarlögunum að svona ákvæði kæmi inn í náttúruverndarlög, sem eru almenn lög, í stað þess að binda þetta á þennan hátt í stjórnarskrá.

Þetta verður alveg örugglega rætt í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta mál verður sent til umsagnar eins og önnur þingmál. Þá getum við séð hvað umsagnaraðilar hafa um það að segja og þingið tekið ákvörðun um þetta í framhaldinu.

Það var orðið tímabært að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Eins og stjórnarskráin er byggð upp núna eru einungis bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur þegar forsetinn vísar málum til þjóðarinnar. Annað eru ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Svo er eitt annað þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði um það þegar þingið leggur til að segja forseta upp störfum, má segja, og það er bindandi og ef þjóðin er sammála þinginu í því ber forsetanum að víkja tafarlaust af Bessastöðum. Á það hefur ekki reynt.

Það eru þessi þjóðaratkvæðagreiðsluákvæði í stjórnarskránni nú þegar. Þetta var mjög framsýnt á sínum tíma því að eins og hefur komið fram hefur stjórnarskráin staðist vel tímans tönn. Hún tók gildi 1944 og hefur staðist tímans tönn og það var ekki stjórnarskráin sem varð til þess að hér varð bankahrun árið 2008 eins og gjarnan er sagt í þessari umræðu. Það er alveg hreint með ólíkindum að það skuli vera notað sem rök hjá þeim sem vilja umbylta stjórnarskránni alfarið, mjög skrýtið.

Það er nokkuð langur kafli hér um þjóðaratkvæðagreiðslurnar. Við sækjum stjórnskipunarréttinn til hinna norrænu ríkjanna. Það er til að mynda ákvæði í dönsku stjórnarskránni þar sem rúmlega 30%, 1/3 þingmanna, geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðna lagasetningu. Það hefur einungis einu sinni reynt á það í Danmörku. Hvað varðar þá sem hræðast að þingið fari að misnota aðstöðu sína til þess að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er þetta með þeim hætti að það er ekki, held ég, misnotað frekar en í Danmörku. Það sem snýr að þessu máli er að ákveðinn hluti þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég veit að landsmenn eru það skynsamir að ég trúi því að þetta verði ekki misnotað. Ekki viljum við fara þá leið sem Svisslendingar eru á. Það eru þjóðaratkvæðagreiðslur þar má segja oft á ári um alls konar málefni, kattahald og hundahald og guð má vita hvað. Ég hef það mikla trú á landsmönnum að ég trúi því ekki að þetta verði misnotað eða notað í pólitískum tilgangi. Þó skal maður aldrei segja aldrei. Það er ekki hægt að segja neitt til um það. Það er ósk margra að það fari aðeins að róast í þinghúsinu og farið verði að vinna á skipulagðari hátt. Ég styð það að þingsköpum verði breytt á nýjan leik þannig að birting þingsins verði með öðrum hætti og sett verði á fót við þingið lagaskrifstofa Alþingis, sem ég hef líka flutt mál um í sjö ár, til að bæta lagasetningu.

Þegar upp er staðið er allt of mikið álag á dómstólunum. Það má m.a. rekja til þess að hér fer ekki fram nógu vönduð lagasetning. Ég get tekið undir það með öðrum sem hafa talað að mér finnst þetta mál komið ansi seint fram miðað við að það eiga að vera þinglok í lok október, eða réttara sagt, afsakið, nýjar kosningar í lok október. Þetta er það umfangsmikið mál og það á eftir að svara svo mörgum spurningum að þó að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé vel mönnuð efast ég um að hægt verði að spyrja allra þeirra spurninga sem þarf í frumvarpinu til þess að sé hægt að fara með þetta inn sem breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarskráin er grunnlögin. Hún er undirstaðan að öllu.

Ég óska þessu máli velfarnaðar í þinginu og vona svo sannarlega að hægt sé að breyta stjórnarskránni með þessum þrepum. Það hefur mikil vinna farið fram á þessu kjörtímabili og hefur verið farið yfir það. Að lokum er rétt að árétta að stjórnarskráin á að veita borgurum landsins rétt fyrir ofríki stjórnvalda. Mér finnst það stundum gleymast. Stjórnarskráin er til þess að vernda rétt borgarana í landinu en ekki öfugt. Þess vegna er svo mikilvægt að ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýr og óumdeild, til þess að þegnarnir viti nákvæmlega rétt sinn. Mér svolítið vanta upp á í frumvarpinu að þetta sé skýrt, til að einstaklingar viti rétt sinn, Þessar tillögugreinar eru mjög langar miðað við það sem þekkist í núgildandi stjórnarskrá. Hver tillögugrein er í mörgum liðum. Það vakna spurningar við lestur hverrar einustu málsgreinar í hverri einustu grein. Ég varð að koma þessu á framfæri að lokum, virðulegi forseti, en ég veit að þetta er byggt á samkomulagi. Ég er þannig og hef þá skoðun að í lagasetningu sé minna betra en meira og skýrara betra en óskýrara. Ég óska stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd velfarnaðar í vinnslu þessa máls.