145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

stjórnarskipunarlög.

841. mál
[17:40]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag. Hún hefur verið ágæt, málefnaleg og farið nokkuð breitt yfir sjónarmið ólíkra flokka. Ég sagði í upphafi máls míns að endurskoðunin á stjórnarskránni hefði verið umdeild alveg frá því í efnahagshruninu 2008 og allt frá þeim tíma hefðu sumir haldið því fram að nauðsynlegt væri að gjörbylta stjórnarskránni til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir gætu gerst aftur. Ég sagði líka að ég hygði að það væru kannski fleiri sem teldu að stjórnarskráin hefði einmitt sýnt styrkleika sinn í því að hægt var að takast á við hrunið með því að setja t.d. neyðarlög sem stóðust allar áskoranir sem þar voru settar fram í dómstólum og alla leið út í EFTA-dómstólinn, stjórnarskráin hefði þar með sannað gildi sitt. Ég taldi jafnframt að það væru margir sem þar af leiðandi vildu fara varlega og varlegar í breytingar og breyta sem minnstu.

Ég hef oft velt því fyrir mér að við í þessum sal horfum gjarnan til hinna norrænu ríkjanna sem fyrirmynda. Við viljum gjarnan hafa svipað stjórnskipulag og þar er. Við viljum gjarnan hafa efnahagsástand og þar er. Við viljum gjarnan að þegnar landa okkar og þeirra búi við sambærileg kjör, velferðarkerfið sé sambærilegt og lýðræðið sé sambærilegt. Þess vegna hef ég oft undrast það að menn vilji kollvarpa stjórnarskránni hér, setja fram hugmyndir um nýtt stjórnskipunarfyrirkomulag sem ekki er annars staðar á Norðurlöndunum og fara út í einhverja tilraun á þeim nótum. Þess vegna hef ég og minn flokkur aðhyllst varfærnari nálgun að því að breyta stjórnarskránni og sú leið sem hefur verið farin og við vorum að kynna í dag, þessar þrjár tillögur, er einmitt sú leið; að lagfæra það sem þarf að lagfæra, styðja það sem þarf að breyta og bæta.

Ég skal viðurkenna að ég hlustaði með athygli á ræður þeirra sem sátu í nefndinni og varð fyrir nokkrum vonbrigðum með það hvernig þeir gerðu þann meiningarmun sem ég taldi vera á sjónarmiðum að umtalsverðu ágreiningsefni og töldu ólíklegt að við næðum saman á þinginu. Ég vil trúa því að það sé hægt. Ég vil trúa því að við viljum forðast kollsteypur. Hér kom Feneyjanefndin, sem er evrópskir sérfræðingar, þegar við vorum að vinna á síðasta kjörtímabili og ráðlögðu okkur að fara hægar. Þeir fóru líka til Finnlands og breyttu niðurstöðu þess sem var í gangi þar, hægðu á ferlinu. Menn fóru varfærnislega í breytingarnar. Norðmenn hafa tekið þann pól í hæðina að endurskoða stjórnarskrána á löngum tíma, taka fá ákvæði fyrir og breyta þeim í eins víðtækri sátt og hægt er. Það hefur þeim gengið m.a. með því fyrirkomulagi að afgreiða það á einu þingi og kjósa um það á nýju, eins og er í okkar stjórnarskrá. Af hverju tekst þeim það en ekki okkur? Það hlýtur að vera áskorun til okkar þingmanna.

Ég hlustaði líka á aðra þingmenn halda ræður. Mér fannst ræða hv. þm. Árna Páls Árnasonar mjög góð, efnisleg og tala inn í það að við gætum náð niðurstöðu.

Ég vil nota síðustu sekúndurnar sem ég hef, frú forseti, til að minnast á það að ekki í þessum stól en á þessum stað, 1. ágúst síðastliðinn, í innsetningarræðu nýs forseta þá fjallaði hann um þetta mál. Hann fjallaði um það að lögin breytast í tímans rás og við stjórnmálamennirnir þurfum að glíma við það og hann taldi að það ætti líka við um stjórnarskrá okkar, gunnsáttmála samfélagsins. Hann taldi að gæti þingið ekki svarað því ákalli margra landsmanna og stjórnmálamanna, yfirlýstum vilja flokka um ákveðnar breytingar og endurskoðun, væri úr vöndu að ráða. Svo ég vitni orðrétt í hann: „Í þessum efnum minni ég á gildi áfangasigra og málamiðlana.“

Ég fullyrði að hér sé um góðar tillögur að ræða sem búið er að fara mjög efnislega vel yfir og ég skora á þingið og núna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að fara vel yfir þetta með (Forseti hringir.) það að markmiði að við ráðum við verkefnið.