145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mjög við hæfi að við ræðum um þjóðaratkvæðagreiðslur í kjölfar þeirra umræðu sem var hér áðan.

Tilefni þess að ég óska eftir þessar umræðu er þingsályktunartillaga allmargra flutningsmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins. Við í þingflokki Pírata ræddum þetta nokkuð og komumst að þeirri niðurstöðu að vera ekki með á því máli en sáum fyrir okkur að það mundi vekja upp mjög lögmætar og réttmætar spurningar um hvers vegna við vildum það ekki, þar sem við erum óneitanlega sá flokkur sem talar hvað mest um þjóðaratkvæðagreiðslur. En það er af þeim ástæðum sem við höfum einnig pælt mest í þjóðaratkvæðagreiðslum, eðli þeirra og tilgangi, til hvers þær eru og til hvers þær eru ekki. Það er nefnilega ekki þannig að þjóðaratkvæðagreiðslur séu markmið í sjálfum sér. Þær eru verkfæri. Verkfæri til að ná tilteknum markmiðum. Markmið þessa verkfæris er í fyrsta lagi að auka og vernda sjálfsákvörðunarrétt kjósenda í landinu. Í öðru lagi virka þær sem öryggisventill þegar Alþingi gerir einhverja gloríu sem ekki er kjósendum þóknanleg. Í þriðja lagi að veita stjórnmálum og stjórnmálamönnum almennt aðhald. Það er ekki markmið verkfærisins að valdefla stjórnmálamenn og það er ekki markmið verkfærisins að stjórnmálamenn hafi enn einn aukarökræðupunkt í deilum sín á milli.

Þess vegna skiptir verulegu máli hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslur eru haldnar, hvernig þær eru haldnar og hverjar afleiðingar þeirra eru. Það að spyrja þjóðina einfaldlega einhverrar spurningar er í sjálfu sér ekki til þess fallið að þjóna þeim markmiðum sem ég nefndi áðan.

Þingsályktunartillagan um flugvöllinn sem hefur nýlega verið lögð fram er ágæt til þess að sýna fram á galla aðferðar eins og þeirrar, þótt mönnum gangi auðvitað gott eitt til og það sé í sjálfu sér virðingarvert að menn vilji spyrja þjóðina að þessu. En tillagan er ráðgefandi. Hún er í eðli sínu ráðgefandi og margir vilja meina að hún þurfi að vera ráðgefandi. Ég er reyndar ekki algerlega sammála því. Ég held að það væri hægt að útfæra hana þannig að hún væri bindandi, þannig að hún fæli innanríkisráðherra það verkefni að endursemja um Reykjavíkurflugvöll við borgina. Þá væri gildistaka þingsályktunartillögunnar bundin þjóðaratkvæðagreiðslunni. Það væri auðvitað ekki það sama og að taka einfaldlega flugvöllinn burt eða halda honum þar sem hann er um ókomna tíð. En það hefði lagatæknileg áhrif. Það væri þingsályktun sem væri í gildi vegna ákvörðunar þjóðarinnar. Það mundi breyta einhverju, það færi beinlínis eftir því hvað þjóðin eða kjósendur ákvæðu.

Hins vegar er tillagan eins og hún stendur núna skoðanakönnun. Hún er einfaldlega ríkisgreidd skoðanakönnun og gefur stjórnmálamönnum ekki nein aukin færi á að ákveða hvaða skref eigi að taka næst. Ef það skref er að endursemja við borgina er auðvitað eðlilegt að það sé einfaldlega hluti af þingsályktunartillögunni og að gildi hennar fari þá eftir því hvernig kjósendur greiða atkvæði.

Það er að mínu mati nefnilega ákveðin vanvirðing, sem er auðvitað ekki heldur ætlan flutningsmanna þessarar tillögu, að draga kjósendur á kjörstað til þess eins að við stjórnmálamenn höfum einhvern einn extrapunkt til að slengja hver framan í annan í rökræðum. Ef það á að valdefla þjóðina þarf valdið að fara til þjóðarinnar. Það er ekki nóg að spyrja hana einfaldlega og síðan velta því fyrir okkur eftir á hvað þetta hafi nú allt saman þýtt, hvernig við eigum að túlka niðurstöðurnar. Við höfum svo sannarlega dæmi um slíkt úr mjög náinni fortíð. Það er ekki nógu gott að við ákveðum síðan eftir á hvort við ætlum að taka mark á þessu eða ekki. Við erum jú einungis bundin við sannfæringu okkar á hinu háa Alþingi samkvæmt stjórnarskrá, réttilega. Og það er ekki einu sinni stungið upp á því í frumvarpi stjórnlagaráðs að það verði neitt öðruvísi en þannig. Það er fast og verður vonandi áfram um ókomna tíð.

Í öðru lagi er málið flóknara en einfaldlega já eða nei. Flugvallarmálið er flóknara en það. Það er samansafn af samningi, skipulagsákvörðunarvaldi Reykjavíkurborgar o.s.frv. Og auðvitað mörgum möguleikum. Margir möguleikar koma til greina, ekki einfaldlega að völlurinn verði þar sem hann er eða ekki. Þetta er flóknara en það. Þess vegna grípur þingsályktunartillagan ekki utan um það. Sem vel á minnst mun einnig valda túlkunarágreiningi, samanber það sem ég sagði áðan.

Síðast en ekki síst skiptir máli hvaðan tillagan kemur. Eins og ég segi eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki hugsaðar þannig að stjórnmálamenn geti notað þjóðina sem einhvern þrýsting, einhvern meðbyr í ágreiningi sín á milli heldur á frumkvæðið að koma frá þjóðinni sjálfri, hvort sem er verið að mótmæla lögum eða kalla eftir nýjum. Þetta er ofboðslega mikilvægt grundvallaratriði og endurspeglast í frumvarpi stjórnlagaráðs en ekki þeirri þingsályktunartillögu sem ég nefndi áðan. Það er hægt að misnota þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er hægt að misnota lýðræðið. Þess vegna er mikilvægt að við höldum þessa umræðu til að átta okkur á því hvað það er sem við erum að reyna að gera, (Forseti hringir.) hvaða markmiðum við erum að reyna að ná, þegar við reynum að lýðræðisefla Ísland.